Létu hund hverfa til að hylma yfir brot

Hundasveitin aðstoðar við leit á týndum hundum.
Hundasveitin aðstoðar við leit á týndum hundum. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfboðaliðar í Hundasveitinni, segja mál mæðgnanna, sem vísað var í 15 ára bann frá Hundaræktarfélagi Íslands, vera alvarlegasta mál sinnar tegundar. Í samtali við mbl.is rekja þær hvernig mál hundsins Jago leiddi meðal annars til dóms Siðanefndar HRFÍ.

Þær segja að mál Gjósku hafi fyrst komið upp árið 2012 þegar ræktunin var kærð vegna rangskráningar í ættbók.

„Því var hins vegar bara sópað undir borðið. Núna var þetta hins vegar orðið svo augljóst,“ en mæðgurnar voru kærðar fyrir sex brot.

Fundu engin ummerki

„Hundasveitin á fyrst þátt í þessu máli þegar dóttirin, annar eigandi Gjósku, auglýsir hundinn Jago týndan uppi á Holtavörðuheiði. Við förum að leita og erum til fjögur um nótt,“ segja þær og bæta við að nætursjónaukar og ýmis tæki hafi verið notuð við leitina.

„Það voru hins vegar engin ummerki og við fáum aldrei skýr svör frá mæðgunum um hvar hundurinn týndist, eða hver týndi honum, eða hvar.“

Þær segja því að Hundasveitin hafi fengið fá svör varðandi leitina. Sveitin hafi því sett sig í samband við fleiri ræktendur Schäfer hunda hvort eitthvað væri í gangi hjá Gjósku.

Sjálfboðaliðar í Hundasveitinni.
Sjálfboðaliðar í Hundasveitinni. Ljósmynd/Aðsend

Tóku hundinn af eiganda

„Við fáum þá að vita að hundurinn hafi átt að fara í DNA-próf. Við í hundasveitinni og okkar stjórnendur ákveðum þá að hætta leit þar sem það væri eitthvað gruggugt í gangi og þá loka þær leitinni sinni sjálfar. “

Mæðgurnar eru meðal annars sakaðar um að hafa brotið gegn skyldum sínum sem ræktendur með því að mæta ekki með hunda í lífsýnatöku til sönnunar á ætterni.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í vikunni frá dómi máli sem mæðgurnar höfðuðu gegn HRFÍ. Eftir að dómur féll í héraðsdómi kom í ljós að hundurinn var aldrei týndur.

Hundasveitin hafði þá samband við eiganda hundsins sem sagði að mæðgurnar hafi komið heim til hennar, tekið hundinn, rifið af honum hálsólina og keyrt í burtu.

Mæðgurnar höfðu svo auglýst hundinn týndan nokkrum dögum síðar.

„Við erum ekki vinsælar

Hundasveitin fékk í kjölfarið mikið af fyrirspurnum af hverju leit var hætt af Jago.

„Þetta var einhvern veginn komið yfir á okkur, eins og við værum á móti því að leita. Við vissum að það væri enginn hundur á heiðinni.“

Hundasveitin gat loks upplýst um það að hundurinn hafi ekki verið týndur eftir að dómur féll.

„Við erum ekki vinsælar eins og hefur kannski sést á kommentakerfinu. Sumir sem eru tengdir mæðgunum eru ekki alveg sammála þessu.“

Ekkert í líkingu við þessi brot

Þær segja að dómur Siðanefndar hafi ekki komið þeim á óvart.

Hafi þið séð eitthvað í líkingu við þessi brot?

„Nei, fólk hefur misst ræktunarnafnið sitt áður en aðeins í rúmt ár en ekkert í líkindum við þessi brot sem eiga hér við. Enda erum við ekki að tala um eitt brot hér heldur mörg ítrekuð brot og því er þetta alvarlegasta mál innan HRFÍ sem hefur sést.“

Mæðgurnar halda áfram ræktun

Hundasveitin segist vita að mæðgurnar hafi breytt um eigendur á hundunum og haldi í raun áfram að rækta.

Með dómi Siðanefndar eru mæðgurn­ar svipt­ar rækt­un­ar­nafni sínu Gjóska og úti­lokaðar frá rétti til að fá af­hent ætt­bók­ar­skír­teini frá HRFÍ í 15 ár.

„Við vitum það að þær eru farnar að rækta undan og skrá á Elliðaeyjar ræktun. Þær eru því farnar að nota það nafn og munu eflaust halda áfram að rækta á því nafni, nema ekki vera skráðar neins staðar.“

Þá segjast þær vita til þess að Matvælastofnun hafi gefið þeim leyfi til þess að flytja inn tík eftir að dómur féll.

„Maður setur stórt spurningarmerki af hverju MAST er að veita þeim innflutningsleyfi þrátt fyrir ítrekuð brot og kærur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert