Nytin stóraukist með mjaltaþjóni og breyttu fjósi

Helga Björg Helgadóttir og Guðjón Björnsson með börnin. Stefán Orri …
Helga Björg Helgadóttir og Guðjón Björnsson með börnin. Stefán Orri og Helgi Björn fyrir framan og Heiðdís Rún í fangi föður síns.

„Róbótinn sem við fengum okkur 2018 hefur mikil áhrif á nytina. Síðan er þetta samspil þess að vel hefur gengið með heyverkun og heilbrigðar kýr sem skiptir miklu máli,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi. Afurðir bús þeirra Helgu Bjargar Helgadóttur hafa aukist stórlega á síðustu árum.

Kúabú Guðrúnar Marinósdóttur og Gunnars Þórs Þórissonar á Búrfelli í Svarfaðardal var með mestu meðalafurðir á nýliðnu ári, eins og árið á undan. Mjólkuðu kýrnar að meðaltali 8.908 kg mjólkur. Bú Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit varð í öðru sæti með 8.664 kg. Guðjón og Helga á Syðri-Hömrum urðu í þriðja sæti með 8.446 kg mjólkur að meðaltali. Þessi bú eru langt yfir landsmeðaltali sem var í fyrra 6.336 kg, nærri 50 kílóum minna en árið á undan.

Graf/mbl.is

Árangur hjónanna á Syðri-Hömrum er eftirtektarverður. Afurðirnar hafa aukist jafnt og þétt síðustu árin. Guðjón nefnir fyrst breytingar á fjósinu þegar leitað er skýringa. Segir að þau hafi breytt hefðbundnu básafjósi í lausagöngufjós á árinu 2018 og fengið sér mjaltaþjón. Kýrnar mæti í mjaltir þegar þær vilja og mjaltaþjónninn telur það tímabært fyrir þær. „Hann er með svo mikið jafnaðargeð, er alltaf í sama skapi þegar kýrin nálgast. Ef þær eru sáttar líður þeim vel inni í honum,“ segir Guðjón. Þetta hefur leitt til stóraukinnar nytar.

Á árinu 2017 voru meðalafurðir eftir árskú á Syðri-Hömrum 6.394 kg mjólkur en voru komnar upp í 8.446 kg á síðasta ári, eins og fyrr greinir.

Guðjón segir að ekki sé alltaf auðvelt að breyta gömlum fjósum til nútímafyrirkomulags. Þau hafi verið heppin. Elsti hluti fjóssins er frá árinu 1963 en yngri hlutinn frá 1986. Fjósið hafi verið vel byggt í upphafi og breytingarnar tekist vel. Svo hafi vélageymslu verið breytt í uppeldishús fyrir nautgripi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 29. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert