Rafmagn fór af víða á Vestfjörðum skömmu fyrir klukkan tvö í dag og er keyrt á varaafli. Unnið er að því að koma rafamagni á alla notendur.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða.
„Mjólkárlína Landsnets sem liggur milli Geiradals og Mjólkárvirkjunar leysti út kl. 13:29. Norðan- og sunnanverðir Vestfirðir fá núna rafmagn frá varaflsvélum og virkjunum og er verið að vinna við að koma rafmagni á alla notendur,“ segir í tilkynningunni.
Vonskuveður gengur yfir landið og er gul viðvörun meðal annars í gildi á Vestfjörðum.