Segist bera ábyrgð á misskilningi um grímuskyldu

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segir það miður að misbrestur hafi orðið á að reglum um grímuskyldu hafi verið fylgt við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna í síðustu viku. 

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent af forseta Íslands á Bessastöðum síðastliðinn þriðjudag. Fjöldi gesta í saln­um var vel yfir því sem sam­komutak­mark­an­ir leyfa. Þá bar eng­inn þeirra grímu fyr­ir vit­um sér, eins og lög kveða á um. 

Í færslu sinni á Facebook óskar Guðni verðlaunahöfum til hamingju með heiðurinn. 

„Því miður féll sá skuggi á viðburðinn að misbrestur varð á því að reglum um grímuskyldu væri fylgt. Eftir að gestir höfðu fengið sér sæti í salnum var grímunotkunar ekki krafist, en það samræmdist ekki gildandi sóttvarnarreglum. Ég ber ábyrgð á þeim misskilningi. Sömuleiðis var það misráðið af mér að fallast á undanþágu til að halda slíkan viðburð á Bessastöðum,“ skrifar Guðni. 

„Frá upphafi faraldursins fyrir um tveimur árum höfum við hér einsett okkur að fylgja öllum tilmælum í hvívetna, fellt niður viðburði eða hagað þeim með breyttum hætti, og aldrei leitað undanþága í þeim efnum. Sá eða sú, sem gegnir embætti forseta Íslands, á að ganga á undan með góðu fordæmi. Nú fór svo að það sem helst hann varast vann, varð að koma yfir hann, eins og sálmaskáldið orti, eða sjálfsmark á lokakaflanum svo að notuð sé samlíking úr heimi boltaíþrótta. Ég biðst innilega afsökunar á þessum leiðu mistökum.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert