„Einhver ára yfir Skálholti hreif mig og hélt mér við efnið. Það má segja að ég hafi heillast af þessum uppljómaða stað,“ sagði Estrid Þorvaldsdóttir sem var að ljúka MA-námi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hvað er Skálholt og fyrir hvern er það, er heiti lokaverkefnis hennar. Leiðbeinandi var Sumarliði Ísleifsson, lektor í sagnfræði. Þar skoðaði Estrid stöðu Skálholts í íslensku nútímasamfélagi. Afstaða fólks var könnuð í djúpviðtölum og skoðanakönnun. Lokahnúturinn var ráðstefna. En þekkti hún eitthvað til Skálholts áður en hún hóf rannsóknina?
„Já, ég hafði verið þar á námskeiðum, bæði listmeðferðarnámskeiðum og jóganámskeiðum, og oft komið þangað sem leiðsögumaður ferðamanna. Ég hafði velt því fyrir mér hver væri eiginlega tilgangurinn með þessum stað,“ sagði Estrid. Hún sagði að Skálholt væri bæði margslungið og ráðgáta eins og kom fram í viðtölum sem hún tók. Estrid spurði m.a. séra Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, hvað gerði staðinn svo sérstakan?
„Hann talaði um að það væri svo mikill heilagleiki yfir staðnum. Fólk kæmi langt að í Skálholt í fyrsta sinn og segði að það þekkti þessa tilfinningu úr öðrum kirkjum. Í Skálholti hefur skapast þessi hái heilagleiki sem maður bókstaflega finnur fyrir,“ sagði Estrid. „Þarna fer fram virkt helgihald sem hefur áhrif þótt þau séu óáþreifanleg. Ég talaði meira að segja við trúleysingja sem sögðust finna fyrir helgi staðarins og bera virðingu fyrir honum. Morgun einn vaknaði ég snemma og ók austur í Skálholt til að prófa að vera við tíðir, morgunbæn sem fer fram með víxlsöng ef margir eru mættir. Það var mjög upplyftandi fyrir andann!“
Hornsteinn var lagður að dómkirkjunni sem nú stendur í Skálholti á Skálholtshátíð 1956. Þar með hófst endurreisn staðarins sem séra Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup Íslands, hafði forystu um. Kirkjan var vígð 1963, lýðháskóli tók til starfa 1972 og reglulegir sumartónleikar hófust 1975. Tókst að endurreisa Skálholt?
„Orðið að „endurreisa“ var svolítið í tísku um og eftir miðja 20. öld. Þetta hugtak getur tengst þjóðerniskennd og hefur verið viðfangsefni fræðimanna,“ sagði Estrid. „Það var mikill eldmóður í Sigurbirni biskupi og hann talaði mikið um að endurbyggja og endurreisa Skálholt sem biskupssetur og kirkjustað. Eldhugurinn náði sínu markmiði, en það hefur verið hellings vinna síðan að sjá um staðinn og finna honum hlutverk.“
Estrid nefndi lýðháskólann sem var stofnaður í Skálholti í anda danska prestsins og menningarfrömuðarins N. F. S. Grundtvigs. Lýðháskólahreyfingin stóð traustum fótum annars staðar á Norðurlöndum. „Því miður þá mistókst þetta hér. Í staðinn fyrir að verða flottur lýðháskóli varð þetta skóli fyrir fólk sem hafði dottið út úr hefðbundna skólakerfinu. Í Skálholti sér maður stórar hugmyndir hafa komist í framkvæmd, en það er eins og það hafi ekki verið hugsað til fulls hvað kæmi á eftir framkvæmdunum.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 29. janúar.