Mæðgur, sem Siðanefnd Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ) hefur vísað úr HRFÍ í 15 ár, eru afar ósáttar við stjórn félagsins og telja hana gera allt til að mál þeirra fái ekki efnislega meðferð fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögmanni móðurinnar sem mbl.is hefur undir höndum.
„Ný stjórn HRFÍ hefur náð að eyðileggja mannorð mæðgna, borið þær röngum sökum og lagt í rúst um 30 ára mjög kostnaðarsamt áhugamál móður sem er menntaður búfræðingur og tamningakona,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að móðirin hafi ræktað íslenska fjárhundinn og staðið að innflutningi á 15 Schäfer hundum, unnið til a.m.k. 70 heiðursræktunarverðlauna og nærri 100 hundar frá ræktun hennar orðið meistarar.
Í yfirlýsingunni er lagt áherslu á að allir hundarnir eru hreinræktaðir en úrskurður Siðanefndar tekur til sex brota mæðgnanna.
Móðirin gerir athugasemd við það að Daníel Örn Hinriksson formaður HRFÍ telji brotið vera alvarlegasta brotamál fyrr og síðar, „alvarlegra en t.d. vanfóðrun eða dýraníð.“
„Að mati móður væri gaman að formaður upplýsti um sín afrek hjá félaginu önnur en ráðast á eigin félaga með ófriði og illindum,“ segir í yfirlýsingunni en mæðgurnar eru meðal annars talnar hafa brotið gegn framkvæmdastjóra HRFÍ með meiðyrðum með því að saka hann um refisverða háttsemi og freklega varpa rýrð á störf hans í þágu félagsins.
Þá segir að Daníel hafi gert það eitt af sínum fyrstu verkum í stjórn að kæra mæðgurnar fyrir meinta rangskráningu en telja þær að hann vissi að allir hundar voru hreinræktaðir.
Annað af brotum mæðgnanna er að þeim er gefið að sök að hafa skráð vísvitandi ranga ræktunartík á nokkur pörunarvottorð við umsókn um ættbókarskráningu gota, sem hafði þær afleiðingar að útgefnar ættbækur gotanna voru efnislega rangar.
Í yfirlýsingunni segir að DNA-rannsóknir sýndu að allt hafi verið fært rétt til bókar en eitt got hafi verið með DNA breytingu sem þykir eðlileg þróun tegundar.
Að lokum segir í yfirlýsingunni að búið sé að kæra ógildingu bráðabirgðaúrskurðar til Landsréttar.
„Álit móður er að hún hafi mátt þola ótrúlegan hroki, yfirganga og dónaskap af hálfu jafningja sem kosnir voru til trúnaðarstarfa en meint vald hafi stigið þeim til höfuðs. Þessi málsmeðferð er þeim til ævarandi skammar og geri þetta félag óaðlaðandi kost fyrir hundaeigendur.“