„Að sjálfsögðu“ lagastoð fyrir gildandi aðgerðum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mætir á ríkisráðsfund í morgun.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mætir á ríkisráðsfund í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra eru sammála um að enn beri nauðsyn til þess að sóttvarnatakmarkanir séu í gildi og eru þannig ósammála rökum um að ekki sé lengur lagastoð fyrir þeim sóttvarnaaðgerðum almennt.

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að þróun faraldursins í þessari viku og þeirri næstu muni svara spurningum um hvort sóttvarnaaðgerðir séu þarfar eður ei.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sögðu í samtali við mbl.is í dag að forsendur fyrir sóttvarnaaðgerðum væru brostnar. Þær vísa báðar í 12. grein sóttvarnalaga þar sem segir að einungis sé lögmætt að setja samfélaginu skorður í nafni sóttvarna ef brýn nauðsyn krefur. 

Ríkisráðsfundur á Bessastöðum í morgun. Ríkisráðsfundir eru venjulega haldnir á …
Ríkisráðsfundur á Bessastöðum í morgun. Ríkisráðsfundir eru venjulega haldnir á gamlársdag en á síðasta degi nýliðsins árs var honum frestað og haldinn í dag í staðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veiran hafi enn mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu

„Rökstuðningur ráðherra er sá að gögn sýni að þetta afbrigði sé minna hættulegt en þau fyrri en engu að síður er það mjög smitandi og hefur mjög mikil áhrif á veitingu heilbrigðisþjónustu eins og til dæmis inni á spítalanum, þar sem verulegur fjöldi fólks er fjarri vegna veikinda. Það er auðvitað svo ástæða þess að spítalinn er enn á neyðarstigi, sem er að sjálfsögðu ógn við almannaheill sem er auðvitað það sem við erum að varðveita samkvæmt sóttvarnalögum. Og svo erum við enn með fyrri afbrigði í gangi og samanlagt gerir þetta það að verkum að spítalinn er enn á neyðarstigi og það er ekki metið svo að það séu forsendur til þess að fara í fullar afléttingar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við mbl.is í dag að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

„Ég hef veitt því eftirtekt að stjórnmálamenn bendi til annarra landa en flest þeirra eru að aflétta í skrefum og sum þeirra meira að segja ekki byrjuð að aflétta þegar við lítum til nágrannalanda okkar. Þannig mér sýnist menn svolítið velja það sem þeir vilja bera sig saman við,“ bætti hún við. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætir á ríkisráðsfund í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætir á ríkisráðsfund í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tekur í sama streng og segir að sjálfsögðu stoð fyrir gildandi aðgerðum í lögum. Hann segir að staðan sé metin dag frá degi og þannig forsendur sóttvarnaaðgerða sömuleiðis.

„Ég met það svo að sjálfsögðu að það sé lagastoð fyrir því sem er í gangi. Kannski er rétt að taka fram að eins og við kynntum þessa afléttingaráætlun að þá metum við stöðuna bara jöfnum höndum. Þær dagsetningar sem lagt er upp með í áætluninni eru ekki heilagar heldur metum við stöðuna jafnt og þétt og afléttum fyrr ef aðstæður bjóða upp á það.“

Willum og Katrín virðast því nokkuð sammála Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, sem sagði við mbl.is í morgun að kórónuveiran væri alls ekki orðin hættulaus. 

Aflétt um leið og forsendur bresta

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það sé alveg skýrt að takmörkunum verði aflétt um leið og forsendur þeirra eru ekki lengur til staðar. Hann segir einnig að lög gefi framkvæmdavaldinu ákveðið „svigrúm“ til framkvæmdar laga. 

„Ég var nú þeirrar skoðunar fyrir viku síðan að forsendur fyrir síðustu herðingum væru brostnar og ég tel að það hafi nú sýnt sig. Í fyrsta lagi lá það fyrir í tölunum sem við vorum þá með í höndunum og í millitíðinni hefur heilbrigðisráðherra gert breytingar, hann hefur tvívegis gert breytingar raunar, í fyrsta lagi voru gerðar verulegar tilslakanir á sóttkví og síðan tilslakanir á sóttvarnatakmörkunum,“ sagði Bjarni við mbl.is eftir ríkisráðsfund áður en hann bætti við:

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mætir á Bessastaði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mætir á Bessastaði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að svarið við þeirri spurningu, hvort við séum enn með of strangar sóttvarnareglur, muni birtast okkur í þróun næstu vikunnar og kannski þeirri næstu. Framkvæmdavaldinu er gefið ákveðið svigrúm við framkvæmd laganna, en við skulum aldrei gleyma því sem þær stöllur [Diljá og Sigríður] eru að benda á, að það þarf brýna nauðsyn til þess að ganga á persónufrelsi fólks og til þess að þrengja að atvinnustarfsemi. Þetta er mjög skýrt í lögunum og stjórnarskráin er meira að segja nefnd í sóttvarnalögunum. Ég er sammála því að um leið og ljóst er að það beri ekki brýna nauðsyn til að hafa jafnstífar reglur og núgildandi reglugerð segir til um að þá beri að aflétta þeim. Og ég mun vera mjög skýr með það áfram að það beri að beita þessum heimildum af varúð og einungis í neyð.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka