Opinn fjarfundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem átti að fara fram í morgun var afboðaður vegna ósamkomulags innan nefndarinnar. Fundurinn varðaði samskipti forsætisráðherra og Íslenskrar erfðagreiningar í tengslum við skimanir fyrirtækisins fyrir SARS-CoV-2-veirunni og mótefnum við henni sem fram fóru árið 2020.
Að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns nefndarinnar, var tekin ákvörðun um að afboða fundinn í ljósi þess að „ekki náðist samkomulag milli þingmannsins sem óskaði eftir fundinum og formanns nefndarinnar.“ Varðaði ósamkomulagið dagskrá fundarins.
Ekki liggur fyrir hvort fundurinn verði haldinn síðar en að sögn Þórunnar á hún síður von á því.
„Það er að sjálfsögðu þannig að þingmenn eiga rétt á því að biðja um opinn fund, það þarf þrjá fulltrúa í nefnd til þess að gera það. Ég studdi það að fundurinn yrði haldinn en við skulum sjá hvað verður,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is