Dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar eftir húsfund

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Karlmaður hefur verið dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða konu 800 þúsund krónur í miskabætur fyrir tilraun til nauðgunar árið 2019. Hafði konan komið í íbúð mannsins eftir húsfund í fjölbýlishúsi þar sem þau bjuggu bæði. Sagði konan að maðurinn hefði haldið henni í íbúðinni og í kjölfarið brotið á henni. Var hann sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar, meðal annars með að hafa káfað á konunni, en ekki var talið að hann hefði náð að koma vilja sínum fram um m.a. að stinga fingri í leggöng konunnar. Taldi dómurinn þó sýnt fram á að maðurinn hefði ætlað sér að fremja umrætt brot og var því sakfellt fyrir tilraun til nauðgunar.

Á umræddum húsfundi var meðal annars rætt um viðgerðir sem þyrfti að gera á íbúð mannsins. Sagði maðurinn að konan hefði viljað koma í íbúð hans eftir fundinn, en hún sagði hann hafa viljað fá sig yfir. Í framhaldinu lýsti konan því að maðurinn hefði tvílæst hurðinni og sett keðju á. Í fyrstu hafi hann verið vinarlegur, en svo orðið ágengur.

Konan lýsti því að hún hafi komist á snyrtinguna en heyrt manninn gera eitthvað við útidyrahurðina. Þegar hún kom út hafi hún séð spýtu skorðaða milli hurðarhúnsins og gólfsins. Sagði hún manninn eftir þetta byrjað að káfa á sér og kysst, eða reynt að kyssa. Hún hafi náð að ýta honum frá sér, en svo hafi hann barið hana inn í rúm og sest á hana og byrjað að káfa meira á henni og meðal annars reynt að setja fingur í leggöng hennar.

Sagðist konan hafa komist fram og haft samband við systur sína, en hann hafi svo tekið símann af henni og aftur farið með hana inn í herbergið. Aftur hafi hún komist inn í stofu og að útidyrahurðinni og hann hafi að lokum aflæst hurðinni og hleypt henni fram á gang.

Maðurinn neitaði sök í málinu og sagði málið hafa reynt mikið á sig. Sagðist hann ekki hafa meinað konunni för, en að hún hafi greint sér frá ýmsum persónulegum málum í íbúðinni, m.a. að hún væri í fíkniefnaneyslu. Sagðist honum hafa fundist nærvera hennar óþægileg og að hann hafi ekki kært sig um að hafa hana í íbúðinni. Þá hafi hann jafnframt beðið konuna um að fara út úr íbúðinni.

Ljóst er að konan hringdi í nokkur skipti í Neyðarlínuna eftir að hún komst í íbúð sína, sem var á hæðinni fyrir ofan, en maðurinn hringdi jafnframt í Neyðarlínuna til að greina frá því að honum hefði ekki litist á ástand konunnar.

Lögreglan var kölluð til og fann konuna í íbúð sinni en enginn kom til dyra í íbúð mannsins. Var því farið með konuna upp á neyðarmóttöku, en maðurinn var handtekinn daginn eftir. Sagðist hann hafa verið farinn að sofa og ekki heyrt í lögreglunni.

DNA-sýni voru send til greiningar af konunni og af fingrum mannsins. Engin sýni fundust undir nöglum mannsins, en blanda af DNA-sýnum úr konunni og manninum fundust á brjósti mannsins. Hafði hann áður neitað fyrir að hafa snert konuna nokkuð, en sagði í skýrslutöku hjá lögreglu eftir þetta að hann hefði nuddað konuna á hálsinum. Fyrir dómi sagðist hann hins vegar ekki hafa nuddað hana, heldur hefðu þetta aðeins verið hugleiðingar.

Í dóminum segir að framburður mannsins hafi í nokkrum atriðum stangast á eða tekið breytingum, meðal annars þetta með snertinguna. „Að öllu framangreindu virtu hefur framburður ákærða hvorki verið nægjanlega stöðugur né heldur í nægjanlegu samræmi við málsgögn. Dregur þetta úr trúverðugleika framburðar hans við sakarmatið,“ segir í dóminum.

Hins vegar taldist framburður konunnar trúverðugur samkvæmt mati dómsins. „Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að framburður brotaþola fyrir dómi hafi heilt á litið verið stöðugur, trúverðugur og hann eigi sér að mestu stoð í öðrum gögnum málsins.“

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að gegn neitun mannsins þyki komin fram lögfull sönnun um að maðurinn hafi sýnt af sér þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir, að því frádregnu að ekki var hægt að sanna að hann hafi stungið fingri í leggögn konunnar.Er því lagt til grundvallar að ekki sé um fullframið nauðgunarbrot að ræða, heldur er hann sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar.

Tekið er fram að talsverðar tafir hafi orðið á meðferð málsins á rannsóknarstigi. Um eitt ár leið frá því að rannsókn málsins hófst þangað til gögn voru send í DNA-rannsókn í Svíþjóð. Þá leið um eitt ár frá því að rannsókninni var í raun lokið þar til málsgögn voru send frá lögreglustjóra til héraðssaksóknara. Segir í dóminum að líta verði til þessara atriða til refsimildunar og var maðurinn sem fyrr segir dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert