Fækkað í farsóttarhúsum

Gylfi segist búast við aukningu smita í vikunni sem nú …
Gylfi segist búast við aukningu smita í vikunni sem nú er að hefjast. Hvort það verði fólk sem þurfi að dvelja í farsóttarhúsi verði að koma í ljós. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi gesta á farsóttarhúsum er töluvert minni en þegar mest lét í kringum áramótin og til greina kemur að fækka húsum, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsa hjá Rauða krossinum.

„Það gengur bara vel. Þetta náttúrulega sveiflast svolítið, þetta gæti snúist algjörlega við í næstu viku, maður veit aldrei,“ segir Gylfi í samtali við Morgunblaðið.

Fækkað um meira en helming

Um 230 manns dvelja nú í farsóttarhúsi að sögn Gylfa en gestir voru hátt í 600 þegar mest lét. Húsin eru sex talsins, fimm á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Akureyri. Starfsmenn húsanna eru um 70 talsins. „Við náðum að manna allar stöður og allt hefur gengið upp eins og það á að vera,“ segir Gylfi, en engir sjálfboðaliðar starfa í húsunum, aðeins starfsmenn. „Nei, við höfum ekkert verið að nota sjálfboðaliða núna. Það er erfiðara út af tryggingamálum.“

Loka þeim sem ekki er þörf á

Spurður hvort komi til greina að fækka húsum í ljósi stöðunnar segir hann svo vera en samningar við hótelin séu mislangir.

„Við förum að huga að því að hætta að setja fólk á sum hótelin og leyfa fólki sem er þar inni að klára. Svo förum við að loka þeim hótelum sem ekki er þörf fyrir, sem við höfum svo sem alltaf gert. Um leið og fækkar þetta mikið þá lokum við og höfum þurft að opna á víxl.

Við búumst við því að smitum haldi áfram að fjölga eitthvað áður en þeim byrjar að fækka,“ segir Gylfi en greint var frá því í vikunni að öllum samkomutakmörkunum yrði aflétt í skrefum næstu vikur og mánuði. Í fyrradag var fjöldi greindra smita um 800, í fyrsta skipti í meira en mánuð sem þau eru undir 1.000. Gylfi segir lítið að marka þær tölur þar sem um var að ræða helgi. „Maður býst við að það verði einhver aukning í [vikunni]. Hvort það sé síðan meðal hópa sem þurfa á okkar þjónustu að halda verður að koma í ljós.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert