Unnið er að viðgerðum á einni af fjórum aflsvélum Nesjavallavirkjunnar eftir að sprenging varð í íhlutum í tengivirki Landsnets á Nesjavöllum á föstudag. Á meðan viðgerðunum stendur framleiðir virkjunin minna af rafmagni en venjulega, eða sem nemur 30 megavöttum.
Þetta segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, í samtali við mbl.is.
„Við byrjuðum að gera við í gærmorgun og það er bara verið að vinna í því núna.“
Í tilkynningu sem ON sendi frá sér á föstudag segir að sprenging hafi orðið í tengivirki Landsnets á Nesjavöllum með þeim afleiðingum að þremur af fjórum aflvélum Nesjavallavirkjunar sló út.
Engin slys hafi orðið á fólki en slökkvilið hafi verið kallað út til að reykræsta.
Aftengja þurfti fjórðu aflvélina til að starfsfólk Orku náttúrunnar gæti athafnað sig við tengivirkið þar sem sprengingin varð.
Þrjár af fjórum aflsvélum voru þó komnar í gang og þær farnar að framleiða rafmagn aftur sama dag.
Aðspurð segir Berglind heildarumfang tjónsins vegna bilunarinnar ekki liggja fyrir ennþá. Það muni þó kosta í kringum 25 milljónir króna að gera við íhlutina sem biluðu.
„Heildarumfang tjónsins skýrist í raun ekki fyrr en vélin er komin í gang aftur.“
Þá eigi það einnig eftir að koma í ljós hvernig koma megi í veg fyrir að bilun af þessu tagi komi fyrir aftur. Framkvæma þurfi mælingar á öllum vélum en fyrst þurfi að gera við vélina sem bilaði.
„Það er í forgangi núna.“
Innt eftir því segist Berglind gera ráð fyrir að viðgerð á vélinni sem er úti ljúki á næstu 10-14 dögum og að þá verði virkjunin með fulla afkastagetu.
„Það að ein vél sé úti þýðir að við erum að framleiða 30MW minna af rafmagni en vanalega.“