Möguleg brot á sóttvarnareglum við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum í síðustu viku eru ekki til rannsóknar hjá lögreglunni í Hafnarfirði. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, stöðvarstjóri og aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, baðst í gær afsökunar á því að misbrestur hafi orðið á því að grímuskyldu væri fylgt við athöfnina. En það vakti athygli í beinni útsendingu RÚV frá athöfninni að gestir báru ekki grímur þegar þeir sátu í salnum, líkt og kveðið er á í sóttvarnareglum.
„Eftir að gestir höfðu fengið sér sæti í salnum var grímunotkunar ekki krafist, en það samræmdist ekki gildandi sóttvarnarreglum. Ég ber ábyrgð á þeim misskilningi. Sömuleiðis var það misráðið af mér að fallast á undanþágu til að halda slíkan viðburð á Bessastöðum,“ sagði Guðni.
Stefán Eiríksson sagði í Morgunblaðinu á fimmtudag að RÚV væri með sömu undanþágu og sviðslistir en að ekki hafi verið sótt um sérstaka undanþágu fyrir þennan eina viðburð. Áður hafi verið sótt um almenna undanþágu fyrir starfsemi RÚV til þess að geta sent út viðburði.
Samkvæmt þágildandi sóttvarnareglum var heimilt að 50 manns kæmu saman á sitjandi sviðslistar- og menningarviðburðum, ef reglur um grímuskyldu og fjarlægðarmörk væru virtar.
Heilbrigðisráðuneytið veitir undanþágur frá sóttvarnareglum og þær þarf að sækja um í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á reglugerð. mbl.is hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar um það hjá heilbrigðisráðuneytinu hvernig undanþágu RÚV er háttað, en ekki fengið.
Í samtali við mbl.is á föstudag sagðist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki vita hvort reglur hefðu verið brotnar á Bessastöðum.
„Samkvæmt reglugerðinni hefðu menn kannski þurft að vera með grímur. En undanþágur frá reglugerðinni fást frá heilbrigðisráðuneytinu, þannig ég veit svo sem ekkert meira um þetta mál,“ sagði Þórólfur.