Grímuleysi á Bessastöðum ekki til rannsóknar

Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur eins og …
Gestir í salnum á Bessastöðum báru ekki andlitsgrímur eins og reglur kveða á um. Skjáskot/Ruv.is

Möguleg brot á sóttvarnareglum við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum í síðustu viku eru ekki til rannsóknar hjá lögreglunni í Hafnarfirði. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, stöðvarstjóri og aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, baðst í gær afsökunar á því að misbrestur hafi orðið á því að grímuskyldu væri fylgt við athöfnina. En það vakti athygli í beinni útsendingu RÚV frá athöfninni að gestir báru ekki grímur þegar þeir sátu í salnum, líkt og kveðið er á í sóttvarnareglum.

„Eft­ir að gest­ir höfðu fengið sér sæti í saln­um var grímu­notk­un­ar ekki kraf­ist, en það sam­ræmd­ist ekki gild­andi sótt­varn­ar­regl­um. Ég ber ábyrgð á þeim mis­skiln­ingi. Sömu­leiðis var það mis­ráðið af mér að fall­ast á und­anþágu til að halda slík­an viðburð á Bessa­stöðum,“ sagði Guðni.

Ekki sótt um undanþágu fyrir þennan viðburð

Stefán Ei­ríks­son sagði í  Morg­un­blaðinu á fimmtu­dag að RÚV væri með sömu und­anþágu og sviðslist­ir en að ekki hafi verið sótt um sér­staka und­anþágu fyr­ir þenn­an eina viðburð. Áður hafi verið sótt um al­menna und­anþágu fyr­ir starf­semi RÚV til þess að geta sent út viðburði. 

Samkvæmt þágildandi sóttvarnareglum var heimilt að 50 manns kæmu saman á sitjandi sviðslistar- og menningarviðburðum, ef reglur um grímuskyldu og fjarlægðarmörk væru virtar.

Veit ekki hvort reglur voru brotnar

Heilbrigðisráðuneytið veitir undanþágur frá sóttvarnareglum og þær þarf að sækja um í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á reglugerð. mbl.is hefur ítrekað reynt að fá upplýsingar um það hjá heilbrigðisráðuneytinu hvernig undanþágu RÚV er háttað, en ekki fengið.

Í samtali við mbl.is á föstudag sagðist Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ekki vita hvort reglur hefðu verið brotnar á Bessastöðum.

„Sam­kvæmt reglu­gerðinni hefðu menn kannski þurft að vera með grím­ur. En und­anþágur frá reglu­gerðinni fást frá heil­brigðisráðuneyt­inu, þannig ég veit svo sem ekk­ert meira um þetta mál,“ sagði Þórólf­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert