Munnlegur málflutningur fyrir Félagsdómi í máli Ólafar Helgu Adolfsdóttur, sem áður var trúnaðarmaður starfsmanna Icelandair á Reykjavíkurflugvelli og er núverandi varaformaður Eflingar, gegn Icelandair fer fram nú klukkan 14 í dag. Að sögn Magnúsar M. Norðdahl, lögfræðingi hjá ASÍ, er um að ræða lokahnykk málsins áður en það er svo lagt í dóm og kveðinn verður upp dómur að nokkrum dögum eða vikum liðnum.
Málið snýr að uppsögn Ólafar hjá Icelandair í ágúst, en þá stóð hún í viðræðum við Icelandair um réttindamál starfsmanna en hún hefur sinnt störfum sem trúnaðarmaður frá 2018 og sem öryggistrúnaðarmaður Vinnueftirlitsins frá 2020.
Í stefnunni var rökstutt með vísun í gögn sem komu meðal annars frá starfsfólki Icelandair og SA, að uppsögnin hafi verið í beinum tengslum við störf Ólafar sem trúnaðarmaður. Slík uppsögn er óheimil samkvæmt lögum 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Farið er fram á að uppsögn Ólafar hjá félaginu verði dæmd ólögmæt.
ASÍ rekur málið fyrir hönd Eflingar sem er með málið fyrir hönd Ólafar. Til varnar taka Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair.
Þegar málið kom upp í fjölmiðlum í október sagði Icelandair að farið hefði verið að lögum og kjarasamningum sem og lögum sem kveða á um vernd trúnaðarmanna.
Í skriflegu svari Icelandair til mbl.is í október var sagt að ekki væri hægt að ræða málefni einstakra starfsmanna opinberlega. „Félagið fer að lögum og kjarasamningum og á það einnig við um lög sem kveða á um vernd trúnaðarmanna starfsmanna. Eins og fram hefur komið er félagið ósammála fullyrðingum Eflingar í umræddu máli,“ sagði hins vegar í svarinu.
Þetta er ekki eina málið þar sem Icelandair hefur þurft að svara fyrir sig í Félagsdómi að undanförnu. Í síðustu viku hafði Flugfreyjufélag Íslands betur gegn félaginu í Félagsdómi og bar því flugfélaginu að afturkalla uppsagnir út frá starfsaldurslista sumarið 2020.
Um 900 flugfreyjum var sagt upp störfum í apríl 2020 í kjölfar faraldursins og endurskipulagningar hjá Icelandair. Sumarið sama ár, þegar línur tóku að skýrast í fluggeiranum var síðan 201 flugfreyja ráðin á nýjan leik og fór flugfélagið ekki eftir starfsaldri. Niðurstaða Félagsdóms, sem er endanleg, var að félaginu hafi verið skylt að afturkalla uppsagnirnar eftir starfsaldri. Félagsdómur féllst á kröfur FÍ og er Icelandair gert að greiða ASÍ 800 þúsund í málskostnað.