Mótmælir því að veiran sé orðin hættulaus

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ekki geta tjáð sig um lagastoð sóttvarnaaðgerða þar sem hann skorti lögfræðimenntun. Hann mótmælir þó algjörlega að kórónuveiran sé orðin hættulaus enda hafi hún valdið víðtækum veikindum í samfélaginu og verulegri truflun á starfsemi heilbrigðisstofnanna með tilheyrandi skerðingu á þjónustu við sjúklinga. 

Hann segir ánægjulegt að Ómíkron-afbrigðið valdi vægari veikindum en ekki sé hægt að líta fram hjá skaðlegu áhrifum veirunnar. Hann kveðst þó ágætlega bjartsýnn á framtíðina.

Í gær greindust 816 kórónuveirusmit innanlands og á laugardaginn greindust 890. Spurður út í lækkunina segir Þórólfur tvo þætti skipta máli, annars vegar færri sýni yfir helgar, og hins vegar breytt fyrirkomulag á sóttkví sem tók gildi fyrir helgi. Hafi því færri einkennalitlir eða einkennalausir einstaklingar greinst um helgina. 

Hafa dregið í efa lagalegar forsendur

Á föstudaginn kynnti ríkisstjórnin afléttingaráætlun þar sem horft verður til þess að aflétta öllum sóttvarnaráðstöfunum á sex til átta vikum. Tók fyrsta afléttingin gildi á laugardaginn. Ekki eru allir á sama máli um hvernig fara eigi að þessu og telja jafnvel þörf sé á því að flýta afléttingunum enn frekar.

Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa dregið í efa lagaforsendur þeirra takmarkana sem eru nú í gildi. 

Sigríður hefur sagt lagaforsendurnar brostnar og hefur þá meðal annars bent á að 12 gr. sóttvarnalaga kveði á um að ekki megi beita sóttvarnaráðstöfunum nema brýn nauðsyn krefji til að verndar heilsu og líf manna.

Diljá Mist tekur einnig í sama streng og bendir á að gjörbreyttar aðstæður séu í samfélaginu og hafi því meðal annars sérfræðingar og heilbrigðisstarfsmenn dregið takmarkanirnar í efa.

Sigríður hafi aldrei stutt sóttvarnaaðgerðir

„Ég er nú ekki lögfræðingur þannig ég ætla kannski að fara varlega í að tjá mig um lagaleg atriði en ég bendi nú á að Sigríður Andersen hefur ekki stutt - eða ég man nú ekki eftir því að hún hafi stutt þær aðgerðir sem hafa verið í gangi gegn Covid-19. Þannig það er kannski ekki nýtt. Það er annarra en mín að kveða á um lagastoðina,“ segir Þórólfur spurður út í gagnrýni Sigríðar og Diljár. 

Hann bendir þó einnig á að þegar talað er um að sjúkdómur ógni almannaheill, og ógni lífi og heilsu, þá sé ekki bara átt við um hve alvarlegur sjúkdómurinn sé. Aðrir þættir skipti einnig máli, eins og til dæmis í tilviki Covid-19 þar sem útbreidd veikindi hafa valdið verulegri truflun á starfsemi spítalans þar sem um 220 starfsmenn eru nú frá vegna einangrunar.

„Þetta hefur þýtt það að spítalinn hefur þurfti að leita til annarra heilbrigðisstofnanna fyrir vinnuafl sem þýðir það að þjónusta við aðra hefur minnkað. Það er búið að fresta valkvæðum aðgerðum á spítalanum um 50% frá því sem var. Það er mjög mikið álag út af veikindum starfsfólks á öðrum heilbrigðisstofnunum og svo er bara mjög mikið álag á öðrum stofnunum samfélagsins sem hefur orðið til þess að almannavarnir hafa þurft að lýsa yfir neyðarstigi.

Þetta svo sannarlega ógnar líka heilbrigði og öryggi landsmanna þó það séu ekki jafn margir að leggjast inn á gjörgæslu, ég held að menn ættu líka að hafa það í huga. Á þeim grunni þá viljum við fara hægt í afléttingar.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert