Ómíkron spratt ekki út úr öðru afbrigði

Bóluefnin vernda gegn alvarlegum veikindum.
Bóluefnin vernda gegn alvarlegum veikindum. AFP

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar spratt ekki út úr öðru afbrigði hennar heldur varð það til út frá upprunalegu gerðinni og varð fyrir mörgum stökkbreytingum á þeirri leið. 

Þetta kemur fram á Vísindavefnum í svari við spurningu úr hvaða afbrigði Ómíkron hafi sprottið. 

Farið er yfir nokkur þekktustu afbrigði veirunnar, svo sem Alfa, Beta og Delta en eftir að síðastnefnda afbrigðið var orðið mjög algengt áttu fáir von á að aðrir myndu skáka því.

Tvær sviðsmyndir þykja nú líklegastar, að Ómíkron verði allsráðandi, það er að segja útrými hinum gerðunum, eða að Ómíkrón og Delta (eða önnur afbrigði) muni ríkja saman um ókomin ár.

Á meðan ýmsir eiginleikar ómíkron komu á óvart, var það fyrirsjáanlegt að það sprytti upp í þeim heimshluta þar sem bóluefni hafa verið af skornum skammti. Bóluefnin vernda gegn alvarlegum einkennum, draga úr smiti og auka líkurnar á hjarðónæmi í stofnum, og vernda þannig viðkvæma hópa og ungviði,“ segir í svarinu á Vísindavefnum.

Því er ítrekað að bólusetningar gætu verið besta leiðin til að aftra þróun nýrra afbrigða veirunnar. Í framhaldinu er svokallað vaktaflökt líklegast en þá víkur veiran sér hægt og rólega undan minni ónmæiskerfis einstaklinga og getur að endingu sýkt þá aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert