Ótti við að smitast af kórónuveirunni hefur fari ögn lækkandi meðal landsmanna frá því í desember á síðasta ári, samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallups. Svipað margir virðast þó hafa miklar- eða frekar miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum Covid-19 á Íslandi.
Könnunin var framkvæmd dagana 14. til 27. janúar á netinu og svöruðu alls 1.123. Þátttökuhlutfallið var 51,8%.
Alls voru 43% þeirra sem svöruðu frekar- eða mjög lítið hrædd við að næla sér í smit, um 24% svarenda óttuðust mjög- eða frekar mikið og 33% óttuðust það hvorki mikið né lítið. Í desember voru áhyggjurnar aðeins meiri en þá óttuðust 29% svarenda frekar- eða mjög mikið að smitast af veirunni og einungis 36% óttuðust það frekar- eða mjög lítið.
Áhyggjur af efnahaginum virðast þó hafa hækkað frá síðasta mánuði en í janúar höfðu 16% svarenda mjög miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum vegna faraldursins á Íslandi og 40% frekar miklar áhyggjur. Í desember höfðu aftur á móti 11% svarenda mjög miklar áhyggjur og 39% frekar miklar áhyggjur.
Fleiri virðast nú bera fullkomið traust til almannavarna og heilbrigðisyfirvalda til að takast á við faraldurinn en 36% svarenda töldu sig gera það, samanborið við 30% í desember. Á móti kemur að aðeins fleiri virðast alls ekki treysta þeim – eða mjög illa.
Þegar kemur að íslensku ríkisstjórninni virðast svarendur bera minna traust til þeirra til að takast á við efnahagsleg áhrif vegna faraldursins. Alls sögðust 26% svarenda treysta þeim fullkomlega eða mjög vel, samanborið við 32% í desember. Um 26% treystu þeim frekar-, mjög illa eða alls ekki, samanborið við 18% í desember.
Ríflega helmingur svarenda telja að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi séu að gera hæfilega mikið til að bregðast við Covid-19, eða 57%. 24% telja að verið sé að gera allt of- eða aðeins of mikið en um 19% telja að verið sé að gera aðeins- eða allt of lítið.