Mikil óvissa er uppi um áhrif afléttinga á sóttvarnaaðgerðum á starfsemi geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, þar sem leguplássum var nýlega fækkað og fjöldi starfsmanna er frá vinnu vegna einangrunar eða sóttkvíar.
Þetta segir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur aðsókn á geðdeild Landspítalans verið sérstaklega mikil undanfarið og álagið á starfsfólk eftir því. Þá séu jafnframt fleiri erlendir ferðamenn sem leiti þangað nú en áður.
Spurð út í stöðuna áréttar Nanna að það sé alltaf nóg að gera á geðdeildinni. Aðsókn í geðþjónustu sé þó breytileg eftir tímabilum.
„Það eru tímabil þar sem aðsóknin er meiri og tímabil þar sem aðsóknin er minni. Það hefur allavega ekki verið fullt út úr dyrum. Við erum samt nýlega búin að fækka leguplássum um sjö og við finnum auðvitað fyrir því, annað væri undarlegt. Það er þó ekki þannig að það hafi skapað okkur einhver stórkostleg vandræði, bara alls ekki.“
Hvað fjölda erlendra ferðamanna sem sæki sér þjónustu á geðdeild varðar segist Nanna ekki hafa tölur yfir þá. Þeir komi í jafn ófyrirsjáanlegum bylgjum og aðrir.
„Það er svo merkilegt hvað þetta er sveiflukennt hjá okkur. Maður er alltaf að leita að einhverju mynstri en við höfum ekki fundið það. Það hefur ekki borist mér til eyrna að það hafi verið fleiri erlendir ferðamenn hjá okkur núna heldur en venjulega.“
Of snemmt er að segja til um það hvor aðsókn að geðdeildinni hafi aukist í faraldrinum, segir Nanna innt eftir því. Stjórnin sé þó sífellt að rýna í tölurnar hvað þetta varðar og reyna að finna eitthvað mynstur.
„Það er bara svo erfitt að vera með samanburð síðustu tveggja ára því það er búið að vera faraldur. Þetta er mjög sérkennileg staða því ef við ætlum að reyna skoða hvort það sé einhver aukning þá þyrftum við að fara alveg aftur til ársins 2019.
Við erum alltaf að rýna í þessar tölur en enn sem komið er hefur bara ekki liðið nógu langur tími. Við erum bara á svo miklum óvissutímum núna.“
Þá sé einnig óljóst hvaða áhrif aflétting sóttvarnaraðgerða vegna kórónuveirufaraldursins mun hafa á starfsemi geðdeildarinnar, þar sem mönnun vakta er nú þegar mikil áskorun, að sögn Nönnu. Óvissan sé fólgin í því hvort afléttingin muni leiða til fleiri smita í samfélaginu og þar af leiðandi aukinna forfalla starfsmanna á geðdeildinni.
„Við vitum ekkert hvað gerist nú þegar faraldrinum verður eiginlega svolítið sleppt lausum og hvaða áhrif það hefur. Það er ekki nóg með að mikið af starfsfólkinu okkar sé að detta út vegna einangrunar eða sóttkvíar heldur erum við líka að fá Covid-smitaða einstaklinga inn í geðþjónustuna og það krefst aukins mannafla.
Við sjáum fram á að þessum sjúklingum muni fjölga og þá munum við þurfa að vernda hina sjúklingana líka, sem verður áskorun. Þannig þetta eru mjög sérstakir tímar og kannski að mörgu leyti einn flóknasti tímapunkturinn í faraldrinum því það er svo mikil óvissa.“
Sama hvernig málin þróast verður þó engum vísað burt frá geðdeildinni sem þarf virkilega á aðstoð að halda, segir Nanna að endingu.
„Við vísum aldrei neinum frá ef það er mat þeirra á bráðamóttökunni hjá okkur að viðkomandi þurfi að leggjast inn. Þannig er það bara. Ef það kemur til þess að það fyllist hjá okkur þá gerum við bara eins og gert er annars staðar á spítalanum, við búum bara til pláss.“