Skuldum samfélaginu afléttingar

Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi …
Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala.

„Þetta eru varfærin skref. Ég styð það að við tökum varfærin skref til baka en þetta er kannski full varlega stigið til jarðar,“ segir Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala, í samtali við mbl.is um afléttingaráætlun stjórnvalda sem kynnt var á föstudag.

„Við skelltum í lás á ákveðnum forsendum sem síðan ekki raungerðust. Þá finnst mér að sjálfsögðu að við ættum að stíga til baka, við skuldum samfélaginu það.“

Ragnar bendir á að alls staðar þar sem Ómíkron-afbrigðið hefur fengið að geisa hafi það tekið yfir og útrýmt öðrum afbrigðum svo sem í Danmörku og Svíþjóð.

Hvenær lýkur neyðarástandi?

Ragnar setti inn Facebook-færslu í gær þar sem hann bendir á að við höfum tekist á við Ómíkron í tvo mánuði og einkenni alla jafna verið væg. Þá spyr hann hvenær sjúkdómurinn hætti að vera hættulegur.

„Maður hlýtur að skoða þetta í tvennu ljósi, annars vegar hvenær hættir þetta að vera einstaklingum hættulegt. Það er margt sem bendir til þess að Ómíkron-afbrigðið sé einstaklingum ekkert sérstaklega hættulegt, en þegar margir veikjast í einu getur það orðið samfélaginu hættulegt, þ.e.a.s. ef margir þurfa að leggjast inn og þannig þrengt að okkur.“

Ragnar segist kalla eftir umræðu um hvenær neyðarástandi verði aflýst vegna Ómíkron þar sem svo fáir leggist inn á sjúkrahús, sérstaklega á gjörgæslu.

„Það hefur ekki lagst inn einstaklingur á gjörgæslu í háa herrans tíð. Þá hlýtur maður að spyrja sig, ef enginn verður alvarlega veikur, þarf á einhverjum tímapunkti að draga línu í sandinn og segja þetta er hættulegt og þetta er ekki hættulegt.“

Þurfum að slaka á skilgreiningum

Nú er fjöldi starfsmanna Landspítala í einangrun, er hægt að skikka þá til að mæta til vinnu ef þeir eru einkennalausir?

„Auðvitað á veikt fólk ekki að mæta til vinnu, það segir sig sjálft. Ekki út af neinum sjúkdómi svo sem inflúensu eða RS-veiru eða eitthvað svoleiðis, þá áttu ekki að mæta til vinnu á sjúkrahús,“ segir Ragnar og bætir við að sömu reglur ættu að gilda um Covid-19.

„Ég er alls ekki að segja að fólk ætti að mæta veikt nokkurs staðar. Það á bara að vera heima hjá sér, taka því rólega og jafna sig. En kannski þurfum við að fara að slaka eitthvað á skilgreiningum í ljósi þess að veirufaraldurinn hefur breyst svo ofboðslega mikið.“

Neyðarástand varað mun lengur en heimsfaraldurinn

Hvernig metur þú stöðuna á spítalanum nú?

„Spítalinn hefur verið við heljarþröm svo árum skiptir. Síðasta fimm og hálft árið sem ég hef unnið þarna hefur alltaf verið troðið af sjúklingum. Ég hef aldrei mætt í vinnuna og það bíður mín laust pláss.

Ef við ætlum að segja að spítalinn sé skilgreining á hvenær við séum hólpinn þá höfum við ekki verið hólpinn í fimm ár, síðan ég flutti heim,“ segir Ragnar og bætir við að 20 til 40 sjúklingar séu fastir á bráðamóttökunni á hverjum degi.

„Það er sama sagan núna. Við erum að nota spítalann sem ástæðu fyrir því af hverju við erum að beita takmörkunum í samfélaginu en neyðarástandið hefur varað miklu lengur en Covid hefur varað“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka