Sigríður Á. Andersen telur að lagaforsendur sóttvarnaaðgerða séu brostnar. Sigríður bendir sérstaklega á þriðju málsgrein í 12. grein sóttvarnalaga sem kveður á um að ekki megi beita sóttvarnaráðstöfunum nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna og við beitingu ráðstafana skal gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til annarra verndarhagsmuna.
Bjarni Benediktsson sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að ef aðstæður halda áfram að þróast með sama hætti væri hægt að halda því fram að lögin kölluðu á hraðari afléttingaráætlun en þá sem var kynnt, en það verði að koma í ljós.
„Mér hefur fundist mjög mikið hafa skort upp á raunverulega rannsókn á sóttvarnaaðgerðum, bæði áður en gripið er til þeirra og einkum og sér í lagi eftir að þeim er aflétt, þannig að hægt verði að leggja mat á það hvort þessar aðgerðir hafi skilað raunverulegum árangri,“ segir Sigríður og bætir við að eftir tilkomu Ómíkron-afbrigðisins hafi innlagnir verið hlutfallslegar fáar og enn færri lagst inn á gjörgæslu.
„Það hefur ekki að mínu mati verið lögð fram sannfærandi gögn í dag um að þessar aðgerðir séu settar fram af brýnni nauðsyn.“
„Það sem felst í því þegar menn velta því fyrir sér hvort aðgerðirnar séu lögmætar eða ekki, er hvort að aðgerð sem byggir á reglugerðum með þessum hætti eigi sér raunverulega stoð í lögum og það er mitt mat að þessar aðgerðir eins og þær eru í dag, geri það ekki.“
Hún bætir því við að hún er ekki einungis að tala um innanlandstakmarkanir heldur einnig takmarkanir á landamærunum og nefnir til dæmis að þar séu mismunandi reglur fyrir bólusetta og óbólusetta. Hún dregur í efa að slík regla eigi sér stoð í lögum.
„Þetta er svo mikið grundvallarfrávik frá megin reglum íslenskra laga. Að mínu mati er vafamál í það minnsta að reglugerð um þetta nægi, að minnsta kosti í svo langan tíma sem hún hefur verið í gildi.“
Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður tekur í sama streng og Sigríður og segir í samtali við blaðamann að hún hafi miklar efasemdir um hvort lagastoðin sé enn til staðar.
Hún bendir á að undanfarna daga og vikur hafi sérfræðingar og heilbrigðisstarfsmenn dregið í efa hvort takmarkanir séu réttlætanlegar í ljósi gjörbreyttra aðstæðna.
„Í ljósi fyrri reynslu skilur maður að stjórnvöld vilji fara hægt í sakirnar en ég hef þá bent á að aðstæður séu breyttar og að það hafi ekki verið stigin svona varfærin skref þegar verið er að skerða frelsi fólks og herða takmarkanir.“
„Það hefur jafnvel verið hert gríðarlega milli tveggja ríkisstjórnarfunda í sömu vikunni. Svo tekur það okkur tvo mánuði að stíga skrefið til fulls og snúa aftur til eðlilegs lífs og fara að lifa með veirunni sem okkur hefur verið sagt að sé takmarkið allan tímann,“ segir hún og bætir því við að stjórnvöldum beri skylda að hlusta á mismunandi raddir í samfélaginu við ákvarðanatökuna.
Diljá bendir sömuleiðis á að markmið stjórnvalda hafi verið síbreytilegt, stundum hafi það verið að vernda heilbrigðiskerfið, stundum að ná niður smittölum eða að fækka innlögnum vegna veirunnar.
„Það getur ekki orðið hér viðtekin venja og viðhorf að við séum með takmarkanir árum saman til þess að vernda innviði samfélagsins, að samfélagið stilli sig af til þess að koma til móts við kerfið, ég tel ekki vera lagastoð fyrir því.“