Vilja geta sagt vinum sínum hvað þau gera

Skiptar skoðanir eru á löggjöf um vændi hér á landi.
Skiptar skoðanir eru á löggjöf um vændi hér á landi. mbl.is

Hagsmunasamtökin Rauða regnhlífin hafa kallað eftir því að frekar verði beitt skaðaminnkandi úrræðum fyrir kynlífsverkafólk á Íslandi, en að þyngja refsingar við vændiskaupum.

„Síðustu tuttugu ár hafa sýnt okkur að sænska leiðin svokallaða er ekki að skila neinum árangri. Það eina sem hefur breyst er að vanlíðan kynlífsverkafólks hefur stóraukist,“ segir Ari, forsvarsmanneskja Rauðu regnhlífarinnar. Rauða regnhlífin eru hagsmunasamtök sem berjast fyrir öryggi og réttindum fólks í kynlífsvinnu á Íslandi og vinna að því binda enda á fordóma gegn fólki sem selur kynlíf.

Sænska leiðin sem Ari vísar til er sú löggjöf að ólöglegt er að kaupa vændi, en það er ekki ólöglegt að selja vændi.

„Það er rosalega skrítið þegar hálfur hluti af starfinu þínu er ólöglegur,“ segir Ari sem starfar í kynlífsiðnaðinum á Íslandi í dag. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu um helgina og sendu út ákall til Stígamóta, grasrótasamtaka sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita fólki, sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi, aðstoð.

Vilja strangari viðurlög

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, segir Stígamót vera fylgjandi því að refsingar við vændiskaupum verði þyngdar, meðal annars til þess að lengja fyrningartíma slíkra mála í dómskerfinu, en segir samtökin ekki berjast beint fyrir þyngri refsiramma þótt þau séu fylgjandi því.

„Við hittum hóp af fólki á hverju ári sem hefur reynslu af vændi og upplifir vændi sem ofbeldi. Allt sem við segjum um vændi er byggt á þessari reynslu fólks sem leitar til okkar. Við teljum að það að beita þessu ofbeldi, sem og öðru ofbeldi, eigi að vera ólöglegt,“ segir Steinunn.

Steinunn segir að sú leið sem farin er nú á Íslandi, þar sem einungis kaup á vændi eru ólögleg, en ekki sala, sé skaðaminnkandi í sjálfu sér.

„Skaðaminnkunin felst í því að sala á vændi er lögleg til að opna allar mögulegar leiðir fyrir fólk sem er að selja kynlíf til þess að leita sér aðstoðar og leita réttar síns. Svo að þau viti að það sem þau eru að gera er ekki rangt og að þau geti fengið alla þau hjálp sem þeim býðst,“ segir Steinunn.

Með því að þyngja refsirammann sé í raun verið að gefa þolendum lengri tíma til þess að leita réttar síns.

Vilja afglæpavæðingu

Ari bendir á í samtali við Morgunblaðið að með því að þyngja refsingar sé þrengt að réttindum þeirra sem kjósa að selja kynlíf af fúsum og frjálsum vilja og þeir settir í aukna lífshættu.

„Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á sænsku leiðinni sýna að starf kynlífsverkafólks verður hættulegra þegar sænska leiðin er farin. Kúnnar verða hættulegri þegar þeir eru tilbúnir að gera eitthvað ólöglegt. Þetta finnur kynlífsverkafólk sem er starfandi í dag hér á Íslandi á eigin skinni,“ segir Ari.

Rauða regnhlífin berst fyrir algerri afglæpavæðingu í kynlífsiðnaðinum og að hann komi upp á yfirborðið, svo fólk sem starfi í iðnaðinum geti borið höfuðið hátt.

„Það sem við viljum er að geta sagt vinum og fjölskyldu frá því hvað við gerum, án þess að það leiði til útskúfunar í samfélaginu. Það er svo margt fólk sem starfar í kynlífsiðnaðinum og enginn í nærsamfélagi þess veit af því,“ segir Ari.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert