„Ætlar hún að biðja starfsfólkið afsökunar?“

Ragnheiður telur að hún eigi ekki afturkvæmt á vinnustaðinn komi …
Ragnheiður telur að hún eigi ekki afturkvæmt á vinnustaðinn komi Sólveig aftur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meirihluti starfsfólks á skrifstofu Eflingar er óttaslegið og upplifir sig aftur í miklum ólgusjó eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, tilkynnti að hún ætlaði að bjóða sig aftur fram til formanns félagsins.

Hún fer fyrir Baráttulistanum sem býður fram til formanns og stjórnar í kosningum sem fara fram núna í febrúar.

Allt frá því Sólveig sagði af sér formennsku í lok október á síðasta ári hefur óvissan um hvort hún gæfi kost á sér aftur eða ekki valdið starfsfólki kvíða og vanlíðan. Þetta segir Ragnheiður Valgarðsdóttir, annar trúnaðarmanna starfsfólks Eflingar, í samtali við mbl.is.

Á varla afturkvæmt á vinnustaðinn

Sjálf hefur Ragnheiður verið í veikindaleyfi frá því um miðjan nóvember og finnst eins og staðan er núna að hún eigi varla afturkvæmt á vinnustaðinn. Hún er ekki viss um að hún geti lagt það á sjálfa sig. Fleiri upplifa sig í svipaðri stöðu, að sögn Ragnheiðar. Að þeim verði ekki stætt á vinnustaðnum komi Sólveig aftur.

„Ætlar hún að biðja starfsfólkið afsökunar ef hún kemur aftur? Hvernig ætlar hún að koma inn og stjórna vinnustaðnum? Hún verður að biðja starfsfólkið afsökunar á hegðun sinni af því þetta endurspeglar ekki það sem hún ætlast til af fyrirtækjum og stofnunum úti í bæ,“ segir Ragnheiður og vísar til þeirra orða sem Sólveig hefur ítrekað látið falla um starfsfólk skrifstofunnar, bæði í viðtölum og á samfélagsmiðlum.

Hún hefur meðal annars sagt að starfsfólkið hafi aldrei skilið baráttuna sem slíka, enda hafi það ekki sett sig inn í hana af þeirri dýpt sem þurfi til.

„Hún ýjar að því í kommentum og í statusum á sínum miðlum að starfsfólkið sé bara einhverjir ónytjungar. Að við séum bara áskrifendur að laununum okkar og séum ekki að vinna vinnuna okkar, skiljum ekki baráttuna og séum bara til óþurftar.“

Hafi æst félagsmenn upp gegn þeim

Ragnheiður segir mjög erfitt fyrir almennt starfsfólk að sitja undir ummælum Sólveigar í fjölmiðlum og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, enda hafi það ekki jafna möguleika á því að koma sinni hlið á framfæri, þannig á það sé hlustað.

„Það sem særir okkur er það að hún er búin að æsa upp félagsmenn og aðra í kommentakerfum til að tala illa um okkur. Hún er að búa til óvild gagnvart okkur til að skara eld að sinni köku. Hún er búin að gefa algjört skotleyfi á okkur. Það er algjörlega óviðeigandi og skapar vantraust á milli félagsmanna og starfsfólks.

Svo sárnar okkur líka henni finnst við ekki geta speglað okkur nógu vel í kjörum félagsmanna. Við erum í daglegum samskiptum við félagsmenn, við sem erum á kjaramálasviði, í sjúkrasjóði og í afgreiðslunni og höldum uppi þessari grunnstarfsemi félagsins. Við erum að aðstoða félagsmenn við að leiðrétta launin sín, sækja rétt sinn og upplýsa þau um réttindi, gera launakröfur og fleira. Að fá þetta í bakið, að við séum annars flokks starfsmenn, er hræðilega ljótt.“

Voru miður sín yfir ákvörðun Sólveigar

Líkt og fram hefur komið sagði Sólveig af sér formennsku í lok október á síðasta ári eftir að starfsfólk skrifstofunnar neitaði að draga til baka lýsingar á vanlíðan sinni og neikvæða upplifun af stjórnunarháttum á vinnustaðnum, sem komu fram í ályktun sem trúnaðarmenn starfsfólks afhentu stjórnendum í júní á síðasta ári.

Í tölvupósti sem Sólveig sendi starfsfólkinu og tilkynnti um afsögn sína sagði hún ályktunina vantraustsyfirlýsingu á sig.

„Með ákvörðun ykkar sl. föstudag um að standa staðfastlega við ýktar  og ósanngjarnar lýsingar trúnaðarmanna á vinnustaðnum sem ég ber ábyrgð á hafið þið opnað á neikvæða umfjöllun og umræðu sem gerir mér illmögulegt að leiða þá baráttu,“ sagði hún jafnframt i póstinum.

Sólveig Anna leiðir Baráttulistann sem býður sig fram í kosningum …
Sólveig Anna leiðir Baráttulistann sem býður sig fram í kosningum til formanns og stjórnar Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnheiður segir þennan viðsnúning á atburðarásinni hafa komið starfsfólkinu í opna skjöldu.

„Stjórnendur beindu spjótum sínum að okkur trúnaðarmönnum. Við vorum blórabögglar og gerð sek fyrir allri atburðarásinni. Það var algjört upplausnarástand á skrifstofunni. Við og starfsfólk vorum miður okkar yfir þessum tölvupósti og þessari ákvörðun. Hún var í ósamræmi við það sem við vildum. Þetta voru ekki skilaboðin okkar.

Næstu vikur voru daglegir starfsmannafundir þar sem við héldum utan um hvort annað og reyndum að skilja það sem gerðist. Ákveðið var að senda ályktun á fjölmiðla til að ítreka að við vildum ekki að formaður segði af sér,“ útskýrir Ragnheiður.

Engar ásakanir um kjarasamningsbrot 

Forsaga málsins er sú að hópur starfsmanna leitaði til trúnaðarmanna Eflingar vegna mikillar óánægju með framkomu framkvæmdastjóra. Þá fann starfsfólk fyrir óöryggi, meðal annars vegna uppsagna tveggja yfirmanna á skömmum tíma, en mikil starfsmannavelta hefur verið á skrifstofu Eflingar síðustu þrjú árin, að sögn Ragnheiðar.

Rúmlega 40 prósentum starfsmanna hafi annað hvort verið sagt upp eða þeir hætt sjálfir. Í augum starfsfólksins hafi margar uppsagnanna virst fyrirvaralausar og fólk hafi verið hrætt við að tjá sig af ótta við að lenda á einhvers konar óvinalista. Skortur á upplýsingaflæði til starfsmanna hafi líka valdið mörgum kvíða.

Trúnaðarmenn óskuðu því eftir að haldinn yrði vinnustaðafundur. Þeir ráðfærðu sig við lögmenn ASÍ og sendu póst á yfirmenn Eflingar. Ekki var hins vegar orðið var við þeirri beiðni. Trúnaðarmenn voru í staðinn beðnir um að safna saman því sem starfsfólkið vildi koma á framfæri; óánægju og áhyggjum, og skrá það niður.

Úr varð að í júní sendi Ragnheiður, ásamt hinum trúnaðarmanni starfsfólksins, Hjördísi Ólafsdóttur, ályktun til stjórnenda Eflingar þar sem lýst var upplifun og vanlíðan starfsfólksins á skrifstofunni. Var þetta í raun aðeins hugsað sem vinnuskjal fyrir stjórnendur til að hægt væri að fara yfir það sem væri að og færa til betri vegar.

Ályktunin fór hins vegar öfugt ofan í Sólveigu og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, en Ragnheiður segir þau hafa mistúlkað hana. Ekki hafi verið um að ræða vantraustsyfirlýsingu á Sólveigu og ályktunin hafi ekki innihaldið ásakanir um kjarasamningsbrot, líkt og Sólveig hefur haldið fram.

„Algjörlega leikrit sem hún setur upp sjálf“ 

Á starfsmannafundi sem haldinn var þann 29. október síðastliðinn bað Sólveig starfsfólkið um að draga það sem í ályktuninni stóð til baka ella segði hún af sér formennsku. Hún myndi missa allan trúverðugleika og slagkraft ef ályktunin yrði gerð opinber, en RÚV hafði þá fengið veður af henni. Ragnheiður segir Sólveigu jafnframt hafa gert lítið úr ályktuninni og sagt það dómgreindarbrest hjá trúnaðarmönnum að bera hana á borð.

Sjálf hefur Sólveig sagst hafa beðið um lágmarks trausyfirlýsingu sem hefði verið hægt að setja fram í einni setningu: „Á skrifstofu Eflingar ríkir ekki ógnarstjórn.“ Starfsfólkið var hins vegar ekki tilbúið að gera það og því sagði Sólveig af sér sem formaður. Er það mat hennar að starfsfólkið hafi með þessum hætti hrakið hana úr embætti.

Viðar Þorsteinsson sagði upp sem framkvæmdastjóri Eflingar í kjölfar afsagnar …
Viðar Þorsteinsson sagði upp sem framkvæmdastjóri Eflingar í kjölfar afsagnar Sólveigar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfðum ekkert út á stefnu hennar að setja og unnum af heilum hug fyrir félagið. Hún ákvað sjálf að móðgast. Þetta er algjörlega leikrit sem hún setur upp sjálf, segir Ragnheiður.

„Þetta plagg átti ekkert að fara neitt. Þetta var bara vinnuplagg handa þeim. Við höfum hvergi lekið því heldur gáfum þeim alfarið tækifæri til að vinna í málunum, en þau búa einhvern veginn til svaka snjóbolta. Þessi ályktun er tekin úr öllu samhengi á þessari vegferð.”

Trúnaðarráðið vildi ekki heyra hlið starfsfólksins

Málið hafi aldrei þurft að rata í fjölmiðla eða að blása svona upp eins og raun bar vitni. Ragnheiður telur að auðvelt hefði verið að leysa málið innanhúss ef vilji hefði verið fyrir því.

„Já, algjörlega. Við vorum búin að gefa þeim tækifæri síðasta sumar og í haust. En svo kemur það í ljós á þessum starfsmannafundi að bæði þeir sem voru búnir að sjá ályktunina og þeir sem voru ekki búnir að sjá hana, þeir voru ekki tilbúnir til að draga upplifanir starfsfólks til baka og við vorum algjörlega á móti því að hún setti okkur í þessa stöðu. Það er ógnarstjórn að setja þau skilyrði um að draga upplifanir og líðan starfsfólks til baka eða hún hætti. Við starfsfólkið vorum bara að biðja um betri vinnuaðstæður. Hvaða skilaboð eru þetta út á vinnumarkaðinn ef formaður stéttarfélags dregur orð starfsmanna og trúnaðarmanna í efa?”

Starfsfólkið reyndi svo að fá áheyrn hjá trúnaðarráði Eflingar á fundi í nóvember. Bréf var ritað þar sem starfsfólkið gerði grein fyrir sinni hlið málsins og óskaði eftir því að það yrði lesið upp. 31 starfsmaður af 45 almennum starfsmönnum Eflingar stóð að bréfinu, en aðeins 3 voru mótfallnir því.

Ólöf Helga Adolfsdóttir, núverandi varaformaður Eflingar, fór með bréfið inn á fund trúnaðarráðsins að ósk starfsfólksins, en upplestri þess var hafnað. Starfsfólkið hefur því aldrei fengið formlegt tækifæri til að gera grein fyrir sinni hlið málsins, en bréfið til trúnaðarráðsins má sjá hér neðst í viðtalinu.

„Það er mjög skrýtið að eftir allt þetta þá langar hvorki stjórnina né trúnaðarráðið að heyra hlið starfsmanna,“ segir Ragnheiður, en áður hafði stjórnin, að einum stjórnarmanni undanskildum, hafnað því að fá ályktun starfsfólksins í hendur.

Sjá ekki annan kost í stöðunni en að segja frá 

Ástandið á vinnustaðnum skánaði eftir að ný forysta tók við félaginu í kjölfar afsagnar Sólveigar. Staðan er hins vegar óbreytt að því leyti að starfsfólkið óttast endurkomu hennar. Það telur að ástandið fari aftur í sama farið og áður og verði jafnvel verra.

„Við ætluðum aldrei að fara í þessu baráttu. Við ætluðum aldrei að fara með þetta mál í fjölmiðla. Það var einlæg ósk okkar í öllu þessu að þau myndu taka á starfsmannamálum án þess að svo yrði. En þau ákváðu að gera það og fóru sjálf með þetta í fjölmiðla og stilltu okkur svona upp.“

Sólveig Anna er nú komin aftur í kosningabaráttu um formannsstólinn …
Sólveig Anna er nú komin aftur í kosningabaráttu um formannsstólinn í Eflingu. mbl.is/Hari

Nú þegar Sólveig hefur tilkynnt framboð sitt sjá þau ekki annan kost í stöðunni en að segja frá því sem gerðist, enda hafi þeirra saga aldrei komið fram.

Margir í hópnum hafa starfað hjá Eflingu í fjölda ára. „Það eru margir þarna inni sem eru orðnir óttaslegnir. Það er fólk sem hún réði sjálf inn og var hennar stuðningsfólk. Kemur inn til þess að vinna að hennar baráttu og lítur upp til hennar,“ útskýrir Ragnheiður.

Sólveig talar um sína miklu stjórnunarhæfileika, en ég hef bara orðið vör við tvískinnung. Hún talar um að trúnaðarmenn séu hornsteinn verkalýðsbaráttu, en síðan veittist hún að trúnaðarmönnum skrifstofunnar af krafti sem enginn annar atvinnurekandi hefur þorað.“

Starfsfólkið upplifir að því sé hótað 

Ragnheiður segir að starfsfólkið upplifi líka að Sólveig hafi hótað því í viðtölum sem hún hefur veitt eftir að hún tilkynnti um framboðið. Vilji það ekki lúta hennar vilja þá geti það bara tekið pokann sinn.

Í viðtali á Stöð 2 nýverið var hún spurð út það hvað henni fyndist um það að einhverjir starfsmenn myndu líklega fara ef hún kæmi aftur. Og svaraði Sólveig:

„Við því vil ég segja að nú fær félagsfólk Eflingar tækifæri til að kjósa og svo er það lýðræðislegur vilji þess sem ræður því hverjir stýra félaginu. Þeir sem stýra félaginu stýra svo auðvitað líka skrifstofunni. Sé það svo að einhverjir þar geti ekki hugsað sér að vinna með lýðræðislega kjörinni forystu er það einfaldlega þeirra mál og ekki mitt eða félaga minna.“

Eftir að Sólveig sagði af sér formennsku var fengin utanaðkomandi aðstoð, að ósk trúnaðarmanna, til að reyna að greiða úr þeim vanda sem kominn var upp á vinnustaðnum. Síðustu vikur hefur sálfræðistofan Líf og sál verið að taka viðtöl við starfsfólk og að sögn Ragnheiðar er skýrsla frá þeim væntanleg. Hún spyr sig hvað verði gert við þá skýrslu ef Sólveig snúi aftur.

„Það er helsta ósk starfsmanna að geta sinnt störfum sínum fyrir félagsmenn í öruggu starfsumhverfi. Það er ástæða þess að óskað var eftir fundi með forystunni og öllu starfsfólki á sínum tíma til að leita úrbóta og stuðla að betri líðan.“

Bréfið sem starfsfólk skrifstofunnar óskaði eftir að yrði lesið upp á fundi trúnaðarráðsins þann 19. nóvember síðastliðinn:

Til trúnaðarráðs Eflingar

Frá meirihluta starfsfólks Eflingar

Þegar fyrrverandi formaður Eflingar ávarpaði starfsfólk á starfsmannafundi 29. október sagði hún frá því að bréfi, sem trúnaðarmenn starfsmanna skrifuðu og sendu á stjórnendur hálfu ári áður, hefði sennilega verið lekið til RÚV. Bréfið inniheldur frásagnir tæplega tuttugu starfsmanna sem leituðu til trúnaðarmanna vegna þess að þau upplifðu vanlíðan og óöryggi vegna stjórnarhátta. Greindi formaður frá innihaldi bréfsins án þess að eyða einu orði í þann vanda sem þar er lýst eða gefa kost á umræðum.

Hún stillti okkur upp við vegg og setti okkur í þá ómögulegu stöðu að bregðast við í fjölmiðlum með því að lýsa yfir að innihald bréfsins ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Við áttum með öðrum orðum að afneita vanlíðan og áhyggjum margra starfsmanna, annars myndi hún segja af sér.

Það liggur í augum uppi að það var ekki sanngjörn krafa af hennar hálfu. En starfsfólk var tilbúið að gera það sem það gat til að minnka skaðann, enda hafði enginn starfsmaður áhuga á því að fá þessa umfjöllun í fjölmiðla né fannst að formaður þyrfti að segja af sér.

Við starfsfólk héldum fjögurra klukkustunda fund, þar sem gerð var grein fyrir tilurð bréfsins, innihald þess og orðalag rætt og starfsfólkið tjáði sig opinskátt.

Í kjölfarið sendi starfsfólk bréf til RÚV til að koma því skýrt á framfæri að starfsfólk vildi ekki að þetta yrði fjölmiðlamál. Enda væri það einlæg trú starfsfólks að þetta væri innanhúsvandi sem væri vel hægt að leysa með stjórnendum. Í því fólst engin vantraustsyfirlýsing.

Fréttin fór mjög lágt. Hún hlaut enga athygli fyrr en formaður og framkvæmdarstjóri félagsmála tóku þá ákvörðun að ganga út. Framhaldið þekkja allir.

Starfsfólk Eflingar getur ekki borið ábyrgð á þeirri atburðarás. Starfsfólk átti engan þátt í að leka innihaldi bréfsins í fjölmiðla. Þvert á móti höfðu trúnaðarmenn okkar ítrekað neitað að afhenda bréfið til utanaðkomandi aðila. 

Við starfsfólk hörmum þann farveg sem fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri félagsmála hafa leitt umræðuna í, með árásum og óhróðri í garð trúnaðarmanna og starfsfólks Eflingar, í krafti valdastöðu sinnar.

Því hefur verið haldið fram að starfsfólk hafi unnið gegn baráttunni sem fyrrverandi formaður stýrði og hafi hvorki skilið né viðurkennt baráttuaðferðir hennar. Það er rangt. Starfsfólk stéttarfélaga hefur hins vegar, eins og allt annað launafólk í landinu, rétt til að tjá sig um vinnuaðstæður sínar og setja fram óskir um betrumbætur við stjórnendur þegar vanlíðan vegna stjórnarhátta er til staðar.

Við starfsfólks hörmum að fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri hafi kosið að ganga frá borði með skaðlegum afleiðingum fyrir baráttu Eflingar í stað þess að horfast í augu við og taka á þeim vanda sem uppi var á vinnustað sem þau stýrðu og báru ábyrgð á.   

Nú viljum við horfa til framtíðar og vinna vel að því að leysa úr innanhússmálum skrifstofunnar í góðri samvinnu við stjórnendur með það að markmiði að halda öflugri baráttu Eflingar fyrir bættum kjörum verka- og láglaunafólks áfram og þjónusta félaga Eflingar á sem besta mögulega hátt.

Samþykkt á starfsmannafundi 18.11.2021

Greidd voru atkvæði um hvort starfsfólk vildi láta lesa ofangreint bréf á trúnaðarráðsfundi.

40 almennir starfsmenn Eflingar greiddu atkvæði:

31 greiddu atkvæði með bréfi

3 greiddu atkvæði á móti bréfi

6 sátu hjá

40 alls

Almennir starfsmenn Eflingar eru 45 talsins.

Stjórnendur tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert