Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir ofsaakstur í miðbæ Reykjavíkur í júní árið 2020, en í ákæru málsins kemur meðal annars fram að hann hafi verið á allt að 100 km/klst hraða á Barónsstíg þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst.
Maðurinn er ákærður fyrir að hafa ekið bifreiðinni, sviptur ökurétti, frá bifreiðastæði Aktu-Taktu við Skúlagötu. Ók hann vestur Skúlagötu og suður Frakkastíg. Því næst áleiðis austur Lindargötu gegn einstefnu. Tekið er fram að hann hafi ekið gegn akstursstefnu annarrar bifreiðar sem þurfti að stöðva til að forða árekstri.
Maðurinn ók svo áfram áleiðis suður Vitastíg, austur Bergþórugötu og suður Barónsstíg. Þar ók hann gegn rauðu ljósi á gatnamótum Barnósstígs og Eiríksgötu á allt að 100 km/klst hraða. Ók hann að gatnamótum Barónsstíg og Laufásvegar en í ákærunni kemur fram að lögreglan hafi þar misst sjónar á bifreiðinni.
Almennt er ákært fyrir umferðalagabrot af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en í þessu máli er jafnframt ákært fyrir hegningarlagabrot sem og lögreglulagabrot. Kemur fram að maðurinn hafi raskað umferðaröryggi í alfaraleið og ekið án nægilegrar tillitsemi og varúðar auk þess að hlýða ekki fyrirmælum lögreglunnar.