Almannavarnir boða til fundar

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar á morgun klukkan 11.

Í tilkynningu segir að þeir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn muni fara yfir stöðu mála hvað varðar faraldur kórónuveirunnar.

Þrjár vikur frá tillögu um lokanir fyrirtækja og stofnana

Rúmar þrjár vikur eru síðan Þórólfur lagði meðal annars til að fyr­ir­tækj­um, stofn­un­um og skól­um yrði lokað, í til dæmis tíu daga, í því skyni að fækka smitum.

Ríkisstjórnin ákvað frekar, þann 14. janúar, að fylgja annarri og hófsamari tillögu sóttvarnalæknis, um að herða aðgerðir en ekki af sömu hörku.

Einnig hafði Þórólfur nefnt í minnisblaðinu þann möguleika að halda aðgerðum óbreyttum.

Sjúklingum fækkaði áður en vika var liðin

Þann sama dag lágu 42 inni á Landspítala, smitaðir af kórónuveiru. Þar af voru átta á gjörgæsludeild.

Fimm dögum síðar, þann 19. janúar, lágu 33 inni á Landspítala með kórónuveirusmit. Þar af voru þrír á gjörgæsludeild.

Þessi fækkun átti sér stað áður en áhrifa frekari takmarkana átti að fara að gæta að sögn Þórólfs, sem hefur jafnan miðað við viku til þess að sjá megi árangur nýrra aðgerða.

Í dag liggur 31 smitaður sjúklingur inni á Landspítala, en þar af eru þrír á gjörgæsludeild.

Er staðan þannig svo að segja óbreytt frá 19. janúar, hvað varðar fjölda smitaðra sjúklinga á spítalanum.

Neyðarstigi spítalans var aflétt fyrr í dag.

Smitum tók að fjölga eftir miðjan mánuðinn, þegar takmarkanir voru …
Smitum tók að fjölga eftir miðjan mánuðinn, þegar takmarkanir voru hertar. Skjáskot/covid.is

Fleiri smit á hverjum degi nú en rétt fyrir aðgerðirnar

Á sama tíma hefur smitum fjölgað töluvert frá því sem áður var.

Raunar hafa fleiri smit greinst á hverjum degi undanfarnar tvær vikur heldur en daginn 14. janúar, þegar hertar takmarkanir voru kynntar, og sömuleiðis dagana þrjá þar á undan.

Ekki er þannig að sjá á nýgengi smita að hertar takmarkanir hafi haft nokkur áhrif í þá veru að fækka þeim.

Takmark aðgerðanna var að fækka smitum niður í 500 á dag.

Undanfarnar tvær vikur hafa þau fæst verið 1.152 talsins á einum degi.

Enginn lagst inn á gjörgæslu í rúma viku

Enginn sjúklingur hefur lagst inn á gjörgæsludeild Landspítala, með veikindi af völdum kórónuveirunnar, í rúma viku. Þrír eru þó á gjörgæslu með kórónuveirusmit, eins og áður sagði.

Tæplega tveir þriðju smitaðra sjúklinga á spítalanum lágu þar inni beinlínis vegna veirunnar, síðast þegar tölfræðiupplýsingar voru gefnar þann 27. janúar.

Aðrir lágu inni ekki vegna veirusmits heldur einungis smitaðir af henni.

Þrír hafa látist frá 14. janúar, smitaðir af veirunni. Karl á áttræðisaldri á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, kona á níræðisaldri á Landspítala og karl á áttræðisaldri á Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert