Kísilver United Silicon í Helguvík er barn síns tíma en áhrif þess, þegar það var starfrækt, eru hræðileg. Þetta sagði Einar Már Atlason, formaður andstæðinga stóriðju í Helguvík, á opnum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd um málefni kísilvers í Helguvík.
Á fundinn voru meðal annars boðaðir andstæðingar stóriðju, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar og fjármálastjóri og lögfræðingur Arion banka.
Greint var frá því um miðjan janúar að Arion banki og PCC hefðu undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni. Þar kom fram að óvíst er hvort af kaupunum verði.
Arion banki kveðst um nokkurt skeið hafa kannað ýmsa möguleika varðandi framtíð kísilverksiðmunnar. Annað hvort þá að finna hæfa aðila til að taka við starfsemi kísilversins eða finna aðrar lausn sem þá fæli ekki í sér að starfsemi hæfist á ný í kísilverinu.
Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka, sagði á fundinum að vilji væri til að skoða alla möguleika í stöðunni. Kostirnir frá sjónarhorni bankans væru þrír: rífa verksmiðjuna, gangsetja hana í sátt við samfélagið eða skoða aðra möguleika á notkun innviða á staðnum.
Hann sagði 15-20 milljarða innviði til staðar en mestu notin af þeim væri augljóslega kísilframleiðsla.
Einar Már sagði bankann vera að troða mengandi stóriðju ofan í kokið á íbúum og fullt af fólki hafi fundið fyrir óþægindum vegna mengunar þegar kísilverið var starfandi. Hann telur að hann sé mengun á svæðinu þó vonda lyktin sé horfin. „Það er allt rangt við þetta,“ sagði Einar Már.
Hann sagðist hafa bæjarstjórn með sér í málinu og undir það tók Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar.
„Það er tími til kominn að henda þessari stóriðjustefnu og hugsa upp á nýtt,“ sagði Friðjón. Hann sagði kísilverið hafa reynst mjög illa og bætti við að yfirgnæfandi meirihluta bæjarbúa í Reykjanesbæ væru mótfallnir verksmiðjunni og rekstri hennar. Andstaðan sneri að heilsufari íbúa.
Friðjón benti á að allir ellefu bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar væru sammála um að best væri að verksmiðjan færi ekki aftur í gangi. Þeirri skoðun hefði verið komið á framfæri við Arion banka en vilji væri til að þróa atvinnuuppbyggingu með öðrum hætti í Helguvík. Vonandi sæi bankinn einnig að framtíðin lægi í öðru en kísilveri.
Bæjarstjórn gæti fátt annað gert en að reyna að hafa áhrif á skipulag lóðarinnar en Friðjón nefndi að kísilverið hefði kostað bæjarfélagið helling og nú sæti Reykjanesbær uppi með milljarðaskuld.