Torfi Helgi Leifsson, framkvæmdastjóri Netorku, áætlar að um þriðjungur neytenda hafi lent í þrautavaraleiðinni, eftir að hafa láðst að velja sér raforkusala. Það sé meiri fjöldi en ráðgert var þegar leiðin var tekin upp sumarið 2020.
Keppinautar N1 rafmagns hafa gagnrýnt verðlagningu fyrirtækisins sem söluaðila til þrautavara. Þvert á leiðbeinandi reglur Orkustofnunar hafi fyrirtækið ekki boðið lægsta verðið.
Torfi segir aðrar leiðir hafa komið til umræðu við val á söluaðila til þrautavara. Þ.m.t. þá að „notendur færu sjálfkrafa á hæsta en ekki lægsta meðalverðið, í stað þess að verðlauna fólk sem taki enga afstöðu með lægsta verðinu á markaði“.
Spurður hvort til sé tölfræði yfir hversu mikil viðskipti hafi átt sér stað um þrautavaraleiðina segir Torfi að Netorka hafi ekki upplýsingar um viðskipti raforkusala.
Netorka birti upplýsingar um fjölda notenda sem fara þrautavaraleiðina en ekki hversu lengi þeir séu hjá viðkomandi raforkusala.
„Við höfum síðan lagt fram beiðni hjá Orkustofnun um að fá að birta markaðsupplýsingar um hlutdeild hvers fyrirtækis á markaðnum en höfum ekki ennþá fengið svar við því.“
Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var fyrirtækið sagt heita Nýorka. Beðist er velvirðingar á mistökunum.