Borgin móti stefnu um geðheilbrigði

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Tillaga verður lögð fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar í dag um að Reykjavíkurborg, fyrst sveitarfélaga, móti sér geðheilbrigðisstefnu varðandi geðrækt, forvarnir og þjónustu í geðheilbrigðismálum. Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi fer fyrir tillögunni.

Lagt er til að borgarráði verði falið að stýra vinnu við gerð stefnunnar. Áfangaskil af stefnunni verði tilbúin 1. maí nk. ásamt tillögum um aðgerðir.

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að ekkert sveitarfélag á landinu hafi mótað sér stefnu í geðheilbrigðismálum.

„Stjórnsýslustigin tvö skipta með sér þjónustu við íbúa. Umfang þjónustu ríkisins nemur 73% af heildarútgjöldum hins opinbera en umfang sveitarfélaga er 27%. Þegar kemur að geðheilbrigðismálum er óljóst hvert hlutfallið er en þó má ætla að meginþorri opinbers kostnaðar falli til hjá ríkinu. Engu að síður er það ábyrgð sveitarfélaga að haga sinni samfélagsuppbyggingu, s.s. þáttum sem snúa að skipulagi og menntun, með þeim hætti að best sé stuðlað að heilbrigði, þ.m.t. geðheilbrigði,“ segir í greinargerðinni.

Alþingi samþykkti í apríl 2016 þingsályktunartillögu um geðheilbrigðisstefnu til fjögurra ára. Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn bendir á að ekkert sveitarfélag hafi í framhaldi af stefnu ríkisins mótað sér stefnu í þessum málum. Mikilvægt sé að sveitarfélög fylgi þarna á eftir og borgin eigi að taka af skarið.

„Reykjavíkurborg hefur verið dugleg að marka sér stefnu í fjölda málaflokka og það er mikilvægt að nú verði það skref stigið að marka stefnu er varðar geðheilbrigðismál Á árinu 2022 mun ríkið móta sér geðheilbrigðisstefnu frá 2022-2030. Sjálfstæðisflokkurinn leggur það til að Reykjavíkurborg fyrst sveitarfélaga móti sér geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem taka mið af nýrri stefnu ríkisins í málaflokknum. E.t.v. gæti Reykjavíkurborg unnið þá stefnu samhliða og jafnvel tekið þátt í vinnu ríkisins að nýrri geðheilbrigðisstefnu Íslands 2022-2030,“ segir enn fremur í greinargerðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert