Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri gefur ekki mikið fyrir að almenningur eigi að spara orku til að koma í veg fyrir orkuskort. „Að hvetja landsmenn til að spara orku til að koma í veg fyrir orkuskort á Íslandi er því eins og að velja að kreista safa úr rúsínu á vínberjaakri. Ávinningur er minniháttar þó að orkunýtni sé afar mikilvæg og eigi alltaf við,“ segir hún í grein sem birt er á vefsíðu Orkustofnunar.
Halla segir að nú sé umræða um orkuskort áberandi í ljósi þess að skerða þurfi raforku til rafkyntra hitaveitna, sem hluti landsmanna reiðir sig á. Bendir hún að að þessar veitur noti 1% af raforku á landinu. Heimilin heilt yfir noti um 5% og sala til þessa hóps hafi lítið aukist. Því sé ávinningur af því að spara orku fyrir þennan hóp minniháttar í stóra samhenginu.
Segir Halla að „skerðanleg orka“ sé góð leið til að nýta orkuauðlindina vel, en að áskorunin felist í því að tryggja að íbár sem treysta á rafkyntar veitur sem noti olíu sem varaafl séu ekki á slíkum samningum, heldur eingöngu kaupendur sem vilja njóta góðs af góðum kjörum „skerðanlegrar orku“ og geti dregið úr orkunotkun þegar við á, eins og nú þegar lítið hefur rignt.
Halla segir að hins vegar þurfi að bæta fleira ef vel eigi að ganga í orkumálum. „Skýra þarf ábyrgð aðila á því að hafa borð fyrir báru, útfæra þarf leikreglur markaðarins og gagnaöflun þarf að bæta svo að kerfið virki óháð árferði og fjölda virkjana á hverjum tíma,“ segir hún. „Slík vinna er einnig grunnur þess að vel takist við að ákveða rammaáætlun, orkuskiptin og önnur stór mál sem eru á dagskrá í stjórnarsáttmála. Hér gildir að horfa heildarsamhengið og útfæra hvernig upphafið og endirinn mætast.“