Almannavarnastig vegna Covid-19 hefur verið fært af neyðarstigi niður á hættustig. Var þetta ákveðið af ríkislögreglustjóra í samráði við sóttvarnalækni, en greint er frá ákvörðuninni í tilkynningu frá almannavörnum.
Neyðarstigi var lýst yfir 11. janúar þegar óljóst var hver áhrif omikrón afbrigðisins yrði á samfélagið, fjölgun innlagna á heilbrigðisstofnanir og fjölgun starfsmanna í einangrun hjá aðilum sem bera ábyrgð á mikilvægum samfélagslegum verkefnum, svo sem í heilbrigðiskerfinu.
Í tilkynningunni segir að þessi breyting hafi ekki áhrif á þær sóttvarnaráðstafanir, skv. reglugerðum heilbrigðisráðherra, sem í gildi eru. Aflétting neyðarstigs, sem tekur gildi klukkan 16 í dag, hefur því ekki í för með sér breytingar gagnvart almenningi.