Forsendur fyrir fyrri herðingum brostnar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börn á grunnskólaaldri verða bólusett í þessari viku en börn á leikskólaaldri í þeirri næstu. Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, telur að rökin fyrir bólusetningu barna standi enn.

Fá börn hafa lagst inn á spítala í yfirstandandi bylgju en mörg hafa smitast og þau sem þurftu innlögn hafa veikst alvarlega. Hann telur fleiri Covid-19-bylgjur fram undan og því sé mikilvægt að búa í haginn með því að bólusetja börn. Flestir eigi eftir að sýkjast af kórónuveirunni á einhverjum tímapunkti og ljóst sé að þeir óbólusettu veikist verr.

Gæti farið af neyðarstigi

Til skoðunar er að færa Landspítalann af neyðarstigi en nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir. Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd funda daglega. Í gær lágu 32 sjúklingar á Landspítala sýktir af kórónuveirunni, þar af þrír á gjörgæslu. Vika var í gær liðin frá því sjúklingur var síðast lagður inn á gjörgæslu vegna Covid-19.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst hafa verið þeirrar skoðunar í síðustu viku að forsendur fyrir fyrri herðingum væru brostnar. Í millitíðinni hafa verið gerðar breytingar með tilslökunum, bæði á sóttkví og sóttvarnatakmörkunum.

Svarið muni birtast í vikunni

Bjarni telur að svarið við því hvort við séum enn með of strangar sóttvarnareglur í dag muni birtast í þróun komandi viku.

„Það þarf brýna nauðsyn til að ganga á persónufrelsi fólks og til þess að þrengja að atvinnustarfsemi,“ segir hann og áréttar að það beri að beita slíkum heimildum af varúð og einungis í neyð.

„Ég er sammála því að um leið og ljóst er að það beri ekki brýna nauðsyn til að hafa jafnstífar reglur og núgildandi reglugerð segir til um að þá beri að aflétta þeim.“

Nánar er fjallað um Covid-19 mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert