Forseti Alþingis hefur falið Guðmundi Björgvini Helgasyni stjórnmálafræðingi að gegna starfi ríkisendurskoðanda þar til kosning nýs ríkisendurskoðanda hefur farið fram á Alþingi.
Skúli Eggert Þórðarson, sem hefur gegnt embættinu, tók nýlega við nýju starfi sem ráðuneytisstjóri í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Guðmundur Björgvin er staðgengill ríkisendurskoðanda en hann er sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun og forstöðumaður skrifstofu embættisins á Akureyri. Hann var áður ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneyti og mannauðsstjóri hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu.