Ekki liggur fyrir hvað veldur skjálftahrinunni við Lundarreykjadal en ljóst er að Borgarfjarðarsvæðið er nokkuð virkara en önnur svæði á Íslandi þegar kemur að innflekaskjálftum. Mætti mögulega tengja spennubreytingar í jörðu við jarðhitann sem þar má finna sem þykir einnig nokkuð athyglisverður. Þetta segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Skjálfti af stærð 3,7 reið yfir norðaustur af Lundarreykjadal í Borgarfirði skömmu eftir miðnætti í nótt. Hafa fleiri minni skjálftar fylgt í kjölfarið en skjálftahrina hefur staðið yfir á svæðinu frá því seint í desember. Hafa að minnsta kosti þrír skjálftar verið yfir þrjá að stærð.
Þykir þetta nokkuð athyglisvert í ljósi þess að skjálftarnir eiga sér stað utan flekaskila og flekamóta og eru ekki á eldvirku svæði, kallast þeir því innflekaskjálftar.
Páll segir langflesta skjálfta í heiminum verða á flekaskilum og eru því innskjálftahrinur á borð við þessa nokkuð óalgengar. Verða innflekaskjálftar jafnframt sjaldgæfari eftir því sem þeir verða stærri en þeir geta þó orðið nokkuð kraftmiklir.
Að sögn Páls eru mismunandi ástæður fyrir innflekaskjálftum. Oftast má þó rekja upptök þeirra til spennubreytinga en þá er bara spurningin: Hvað veldur?
„Á þessum stað þarna er erfitt að svara því. Það liggur ekki alveg ljóst fyrir hvaða spennur það eru sem losnar um en langlíklegasta skýringin finnst mér vera að þetta sé tengt jarðhitanum í Borgarfirði,“ segir Páll.
„Í rauninni ætti ekki að vera eins mikill jarðhiti í Borgarfirði og er. Á því þarf að vera einhver skýring og það gæti verið sama skýring og er á skjálftunum.“
Stærsti innflekaskjálftinn á Íslandi var, að sögn Páls, einmitt í Borgarfirði í innskjálftahrinu sem stóð hátt í ár, frá 1973 til 1974. Átti hún upptök norðan við Kjarrárdal. Varð stærsti skjálftinn í júní árið 1974 og var hann upp á 5,5 stig.
Stóð Páll sjálfur að rannsókn á þeirri hrinu en það var hluti af doktorsverkefni hans.
„Það var svolítið tjón í Borgarfirði í þeim skjálftum en síðan hefur ekkert orðið neitt í líkindum við það í Borgarfirði,“ segir Páll og bendir jafnframt á að forvitnir Borgfirðingar geti lesið grein um þá hrinu í Borgfirðingabók sem kom út á síðasta ári.
Hann segir þó áhugavert að fylgjast með hrinunni sem stendur nú yfir enda búum við yfir mun betri eftirlitstækni en á áttunda áratugnum.
„Það safnast núna heilmikil gögn um þessa hrinu sem voru alls ekki til um gömlu hrinuna. Þetta er spennandi tækifæri til að fá botn í þetta mál.“
Aðspurður segir hann nú erfitt að segja til um hvort hrinan muni koma til með að standa lengi yfir.
„Það eru engar upplýsingar sem hægt er að byggja á í því. Stundum standa hrinur stutt og stundum standa þær lengi. Enn sem komið er þá hafa stærstu skjálftar farið stækkandi í þessari hrinu. Þetta gæti þess vegna verið síðustu skjálftarnir en það eru bara engin gögn sem geta sagt okkur til um það. Við ráðum ekki yfir þeirri tækni að spá fyrir um skjálftana.“