Stórhýsi við Grensásveg ekki samþykkt

Svona átti hið nýja 54 íbúða fjölbýlishús við Grensásveg að …
Svona átti hið nýja 54 íbúða fjölbýlishús við Grensásveg að líta út. Tillögunni hefur verið hafnað. Tölvumynd/Atelier arkitektar

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur hafnað ósk þess efnis að heimilað verði að rífa húsið Grensásveg 50 og byggja í staðinn stórt fjölbýlishús á lóðinni.

Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu 11. desember sl. barst Reykjavíkurborg fyrirspurn um það hvort heimilað yrði að byggja fjölbýlishús með allt að 54 íbúðum á lóðinni Grensásvegi 50. Byggingin var brotin upp í einingar og stallast 4-6 hæðir og rís hæst á Grensásvegi, 10 hæðir. Húsið átti að verða alls rúmlega 8.400 fermetrar. Meðalstærð íbúða yrði 97 fermetrar.

Varðar hagsmuni allra

Á lóðinni, sem er ofarlega við götuna, stendur hús sem átti að rífa ef áformin næðu fram að ganga. Húsið er upphaflega hannað af Skúla Norðdal arkitekt.

Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa. Í umsögn verkefnisstjórans segir að þegar horft sé til þróunar möguleika á uppbyggingu sé nauðsynlegt að horfa til allrar lóðarinnar eða alls reitsins sem um ræðir, þar sem það varðar hagsmuni allra hvernig hún er nýtt.

„Reiturinn sem lóðin er hluti af samanstendur af Grensásvegi 44-48, G 50 og Skálagerði 4-6 og þarf að horfa til alls reitsins varðandi þróunarmöguleika/breytingar þar sem m.a. tækifæri og umhverfisáhrif hafa óhjákvæmilega mikil áhrif á þann kjarna,“ segir í umsögninni.

Enn frekar er bent á að svo virðist sem húsin sem nú standa á lóðinni séu í góðu ástandi og séu góðir fulltrúar síns tíma í sögu byggingarlistar. Í því samhengi er bent á að vanda þarf til ákvörðunar um niðurrif húsa. Þau uppfylla einnig það að aðlagast upp að vissu marki ólíku byggðamynstri nærliggjandi svæða. Vel mætti sjá fyrir sér einhverja þróun uppbyggingar á reitnum, til að mynda að uppbyggingu Grensásvegar 44-48 yrði breytt þannig að hús yrðu byggð að götu og skipti þá miklu máli hvernig aðlægar byggingar væru í því samhengi. Einnig mætti mögulega sjá fyrir sér einhverja hækkun húsa á Grensásvegi 50, þá einkum inndregið, og blandaðri notkun, m.a. íbúðir á efri hæðum. En allt þyrfti þetta að gerast í samhengi.

„Að ofansögðu er því ekki mælt með að skoðaðar/heimilar verði breytingar á einni lóð í þessum kjarna þar sem þörf er talin á að skoða hann sem eina skipulagslega heild. Ennfremur þykir sýnd tillaga vera langt umfram þá uppbyggingu sem hægt er að sjá fyrir sér á þessum stað,“ segir í greinargerð verkefnisstjórans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert