Umboðsmaður spyr út í nýja ráðuneytisstjóra

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér bréf þar sem ráðherrar eru spurðir út í skipun og setningu tveggja ráðuneytisstjóra nú í lok janúar.

Annars vegar er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra beðin um skýringar á tímabundinni setningu ráðuneytisstjóra.

Hins vegar er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra, spurð um skipun ráðuneytisstjóra.

Ásdís Halla Bragadóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ásdís Halla og Skúli Eggert

Í tilkynningu í gær kom fram að Ásdís Halla Bragadóttir hefði verið sett ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

Sagði einnig að setningin væri tímabundin til þriggja mánaða á meðan auglýst er eftir ráðuneytisstjóra fyrir hið nýja ráðuneyti.

Í síðustu viku var greint frá því að Skúli Eggert Þórðarson hefði verið skipaður ráðuneytisstjóri nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og hóf hann störf í dag eins og Ásdís Halla.

Kom fram að ákvörðunin væri reist á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimildir til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta.

Skúli Eggert Þórðarson.
Skúli Eggert Þórðarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engum háður í störfum sínum

Í bréfi umboðsmanns til Lilju er rakið að í heimildinni felist að stjórnvald sem skipað hefur mann í embætti geti samþykkt að hann flytjist í annað embætti er lýtur öðru stjórnvaldi.

Umboðsmaður bendir á að Alþingi hafi kosið ráðuneytisstjórann í embætti ríkisendurskoðanda árið 2018 og heyri hann samkvæmt lögum undir það og sé því sjálfstæður og engum háður í störfum sínum.

„Hafi það verið gert á grundvelli áðurnefnds ákvæðis um flutning embættismanna milli embætta er spurt um hvaða forsendur og lagasjónarmið bjuggu þar að baki.“

Spyr hvort starfið hafi verið auglýst

Í bréfi umboðsmanns til Áslaugar segir meðal annars að í ljósi þess að verið sé að setja á fót nýtt ráðuneyti verði ekki annað ráðið en að um nýtt embætti sé að ræða.

Umboðsmaður spyr því hvort starfið hafi verið auglýst til umsóknar. Hafi það ekki verið gert biður hann um skýringar á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert.

Ráðherrarnir eru beðnir um svör fyrir 12. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert