Ríkið birtir kröfur um þjóðlendur á Austfjörðum

Dyrfjöll og Stórurð nálægt Borgarfirði eystri eru meðal þeirra svæða …
Dyrfjöll og Stórurð nálægt Borgarfirði eystri eru meðal þeirra svæða sem ríkið gerir kröfu um. Ljósmynd/Helgi Magnús Arngrímsson

Íslenska ríkið hefur afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á Austfjörðum, en það hefur verið auðkennt sem svæði 11 í vinnu óbyggðanefndar. Nær það til hluta Múlaþings og Fjarðarbyggðar. Samtals er um að ræða 25 afréttarlönd eða önnur svæði sem ríkið gerir kröfu um. Hafa þeir sem telja til eignarréttinda á landsvæðunum nú frest til 6. maí að lýsa kröfum fyrir óbyggðarnefnd.

Eftir að kröfufrestur er útrunninn verða heildarkröfur kynntar og óbyggðanefnd mun rannsaka málin m.a. með gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu umræddra svæða úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur.

Þetta er sextánda svæðið þar sem ríkið setur fram kröfur sínar og síðasta svæðið, utan skerja og eyja umhverfis landið. Málsmeðferð er þegar lokið á fjórtán svæðum, en málsmeðferð stendur enn yfir í Ísafjarðarsýslum auk Austurlands.

Krafa ríkisins um þjóðlendumörk er afmarkað með dökkbláum lit. Gula …
Krafa ríkisins um þjóðlendumörk er afmarkað með dökkbláum lit. Gula línan sýnir afmörkun svæðis 11 og appelsínugula línan sveitarfélagsmörk. Kort/Landmælingar Íslands

Meðal svæða sem ríkið gerir kröfu um eru afréttir ofan Borgarfjarðar eystri og í nágrenni Dyrfjalla. Þá er einnig gerð krafa um Fannardal milli Mjóafjarðar og Reyðarfjarðar, en fyrir um hálfum mánuði var greint frá kaupum Síldarvinnslunnar á svæði í Fannardal. Ætlaði fyrirtækið þar að hefja skógrækt, en auk þess eru þar fjórar vatnsmiklar ár þar sem möguleiki er fyrir vatnsaflsvirkjanir auk þess sem líkur eru taldar á að heitt vatn sé að finna í dalnum.

Þá er einnig gerð krafa um umfangsmikla afrétti vestur af Öxi og upp af Hamarsdal, Geithellnadal og Hofsdal.

Skýrara yfirlitskort um afmörkun kröfusvæðanna má sjá í viðhengi hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert