Sjálfkrafa starfslok við 67 ára aldur „búið dæmi“

Isavia mátti ekki segja upp starfmanni þegar hann varð 67 …
Isavia mátti ekki segja upp starfmanni þegar hann varð 67 ára og byggja það aðeins á starfsaldri hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Isavia var óheimilt að segja starfsmanni upp þegar hann varð 67 ára þar sem uppsögnin var aðeins reist á aldri hans. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli Þorgríms Baldurssonar gegn opinbera hlutafélaginu.

ASÍ kærði málið fyrir hönd mannsins til nefndarinnar, en byggt er á nýjum lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem tóku gildi 1. september 2018. Taka lögin til þess að einstaklingar eigi að hljóta jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Sjálfkrafa starfslok við lífeyristökualdur „búið dæmi“

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ sem rak málið fyrir nefndinni, segir í samtali við mbl.is að þarna sé nýtt grundvallarmál að festa sig í sessi sem byggi á nýlegum lögum.

„Ég held að þetta geti skipt gríðarlegu máli,“ segir hann og vísar meðal annars til þess að með þessum úrskurði sé í raun verið að segja að fyrirtæki geti ekki sagt upp fólki eingöngu út frá því að það sé komið á lífeyristökualdur.

„Það er búið dæmi.“

Tekur hann fram að þetta eigi bæði við um opinbera og almenna vinnumarkaðinn.

Halldór tekur fram að til séu allskonar reglur og lög sem lúti meðal annars að öryggi og þar eigi úrskurðurinn ekki við. Nefnir hann sem dæmi flugstéttir þar sem í gildi séu reglur um hámarksaldur og læknisskoðun.

„Þessi úrskurður varðar það þegar fólk þarf að láta af störfum bara vegna aldurs.“

Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ.
Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ.

Báru fyrir sig fjárfestingu í yngra fólki

Í þessu tilfelli bar Isavia meðal annars fyrir sig að fyrirtækið hefði áður haft reglur sem miðuðu við starfslok við 67 ára aldur. Þá væri einnig verið að fjárfesta í yngra starfsfólki sem ekki hefði sama aðgang að greiðslum úr lífeyriskerfinu og almannatryggingakerfinu og eldra fólk og að yngra fólk bæri jafnframt almennt þyngri greiðslubirgði vegna húsnæðis- og fjölskylduaðstæðna.

Halldór segir að þessi rök gildi ekki samkvæmt úrskurðinum.

Þetta mál muni skapa mikil ruðningsáhrif á vinnumarkaðinn sem hann segir að hafi búið við mikla aldursmismunun. Bendir hann á að málið hafi verið mikið umræðuefni síðan lögin tóku gildi og að kærunefndin hafi einnig tekið sér um eitt ár að kveða upp úrskurðinn. Segir hann því ljóst að allir hafi gert sér grein fyrir því hversu stór og mikil niðurstaða þetta sé.

Fólk getur áfram ákveðið að hefja lífeyristöku 67 eða 70 ára

Úrskurðurinn mun að sögn Halldórs ekki breyta því að fólk mun áfram geta hafið lífeyristöku við 67 eða 70 ára aldur sé það vilji viðkomandi.

„En það er mikilvægt þarna að fólk á að fá að gera það á eigin forsendum. Ég held að þetta muni hafa þau áhrif að fyrirtæki muni virða rétt fólks til að hætta á eigin forsendum, ekki af því að fyrirtækin hafi sett ákveðin viðmið eða vilji lækka launakostnað,“ segir Halldór og bætir við: „Ég held að þetta sé stórt skref í þá átt að koma í veg fyrir aldursfordóma.“

„Ljóst að þetta var talsvert tjón fyrir hann

Þorgrímur fær samkvæmt úrskurðinum dæmdar 150 þúsund krónur í málskostnað, en nefndin telur ekki að það sé hennar að úrskurða um bætur líkt og farið var fram á. Spurður um næstu skref fyrir Þorgrím segir Halldór að hann sé til viðræðu um lúkningu málsins þannig að tjón hans verði bætt.

„Hann var ekki tilbúinn að hætta að vinna 67 ára og þetta mun byggja á væntum tekjum hans. Ljóst að þetta var talsvert tjón fyrir hann,“ segir Halldór.

Spurður um hvað taki við segir Halldór að Isavia geti alltaf farið með málið fyrir dómstóla og líklega sé fyrirtækið að skoða þá hlið málsins núna. Hins vegar þurfi fyrirtækið núna, samkvæmt breytingu á lögum um stjórnsýslu jafnréttismála frá árinu 2020, að stefnu kærunefndinni og kæranda og myndi þá væntanlega ríkið, fyrir hönd kærunefndarinnar taka til varna.

Ef Isavia velji ekki þessa leið verði væntanlega rætt við fyrirtækið um bætur, en annars geti Þorgrímur farið með málið fyrir dómstóla sem skaðabótamál.

Fyrirtæki hafi oft farið „full frjálslega

Halldór segir ASÍ hafi fundið talsvert fyrir því að verið sé að segja fólki upp við 67 eða 70 ára aldur sem vilji vinna áfram.

„Ég tel að mörg fyrirtæki hafi leyft sér að fara með þetta full frjálslega,“ segir hann og bætir við að eðli málsins samkvæmt séu margir eldri starfsmenn dýrari vegna starfsaldurs og kjaratengdra réttina. Þá séu langvinn einnig líklegri þegar komið sé á þennan aldur.

„Oft sér maður mál þar sem mann grunar að fyrirtæki séu að losa sig við starfsfólk sem er komið á efri ár, af því að það er dýrara starfsfólk og komið ofar í launatöflu.“

Hann segir að tíu aðrir fyrrverandi starfsmenn Isavia séu með sambærileg mál og Þorgrímur þannig að málið snúist um meira en bara hann. Þá hafi ASÍ þegar fengið símtal frá aðildarfélögum sínum í dag þar sem þau félög telja sig vera með sambærileg mál.

Tekur Halldór fram að ef starfsfólk telji að brotið hafi verið á sér þurfi fyrst að huga að því að lögin tóku ekki gildi fyrr en í september 2018 og því eigi eldri mál ekki við. Þá telji hann að almenn fyrningarregla upp á fjögur ár annars gilda um það hversu langt aftur mál geti náð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert