Vill sjá fleiri smíða tillögurnar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist telja mikilvægt að stærri hópur en nú komi að því að skila tillögum um sóttvarnaaðgerðir vegna faraldurs til heilbrigðisráðherra. Hann er því nokkuð ánægður með frumvarpsdrög þar að lútandi.

Í þeim er lagt til að níu manna far­sótta­nefnd taki að nokkru leyti við verk­efn­um sótt­varna­lækn­is og komi með til­lög­ur til heil­brigðisráðherra um beit­ingu veiga­mestu op­in­beru sótt­varn­aráðstaf­ana vegna sam­fé­lags­lega hættu­legra sjúk­dóma.

„Ég lýsti því við hópinn sem stóð að þessum nýju drögum að ég teldi að það væri mjög mikilvægt að hafa stærri hóp sem stæði að tillögugerð og bæri ábyrgð á tillögum til ráðherra og þetta er alveg í samræmi við það sem ég lagði til og mér finnst það skynsamlegt. Það eiga eftir að koma alls konar athugasemdir við þetta held ég, það verður bara áhugavert að sjá hvernig þróunin verður,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Fulltrúar ráðuneyta og forstjórar heilbrigðisstofnana í nefndinni

Þórólfur á eftir að fara betur yfir drögin og skila sínum athugasemdum en Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sat í vinnuhópnum sem að drögunum standa.

Hann segir að frumvarpið hafi ekki verið smíðað einungis með kórónuveirufaraldurinn í huga heldur einnig önnur verkefni sóttvarnalæknis.

Spurður hvort um væri að ræða pólitískt skipaða farsóttanefnd benti Víðir á að í drögunum væri lagt til að hana myndu skipa fulltrúar ráðuneyta, forstjóri Landspítala, forstjóri heilsugæslunnar og ríkislögreglustjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert