Inga Þóra Pálsdóttir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld vilja vera varfærin þegar kemur að afléttingu sóttvarnaaðgerða en kveðst vonast til að hægt verði að aflétta fyrr en þegar hefur verið tilkynnt.
Hún segir að stöðugt sé verið að meta aðgerðirnar.
„Okkar lína í þessu er óbreytt. Við viljum áfram vera varfærin og taka stöðuna alltaf út frá nýjustu mögulegu gögnum. Þetta er í stöðugu mati,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.
Í dag var eins metra regla á viðburðum felld úr gildi. Þá er nú í skoðun að stytta einangrun úr sjö dögum í fimm en samkvæmt heimildum mbl.is er ólíklegt að það verði kynnt eftir ríkisstjórnarfund á morgun.
Þá er sömuleiðis ólíklegt að annars konar afléttingar verði kynntar á morgun.
Eins og mbl.is greindi frá í gær rekur Ísland lestina í afléttingum þegar litið er yfir tímasetningar afléttinga á Norðurlöndum.
Katrín segir íslensk stjórnvöld fylgja leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en þó sé vilji fyrir því að aflétta fyrr.
„Lönd eru að fara ólíkar leiðir í þessu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að það sé mikilvægt að stíga þessi skref ákveðið en varfærið og við hlustum á það,“ segir hún.
„Þar erum við að horfa á fjölda smita í samfélaginu og áhrifin á innviðina og stofnanirnar, en um leið er ríkur vilji til að gera þetta eins hratt og mögulegt er.“