Aldrei sinnt jafn mörgum útköllum eins og í morgun

Mikil hálka hefur myndast á götum höfuðborgarsvæðisins í dag.
Mikil hálka hefur myndast á götum höfuðborgarsvæðisins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árekstur.is sinnti alls 20 útköllum milli klukkan átta og níu í morgun á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjórinn segir þetta annasamasta morgun frá stofnun fyrirtækisins, eða í 15 ár. 

Mikil hálka hefur myndast víða á höfuðborgarsvæðinu og hafa ökumenn lent í miklum vandræðum vegna hennar. Hafa nú um 30 tilkynningar borist fyrirtækinu frá því klukkan 8 í morgun sem eru um tvöfalt fleiri en bárust í allan gærdag. 

Mbl.is greindi frá því í morgun að 10 bílar hefðu lent í árekstri á Kringlumýrarbraut snemma í dag. Voru árekstrarnir samtals fjórir.

Tvöfalt fleiri útköll í morgun en í allan gærdag

„Á fyrsta klukkutímanum tókum við 20 útköll. Það hefur aldrei gerst áður,“ segir Kristján Ö. Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við mbl.is.  

Að sögn Kristjáns hafa allir árekstrarnir verið vegna hálkunnar og höfðu ökumenn tal á því að nagladekkin hefðu lítið sem ekkert að segja. Eru nú að minnsta kosti 10 bílar ónýtir en sem betur fer hefur líkamstjón þó ekki verið mikið.

Flestar tilkynningarnar bárust frá Hafnarfirði þar sem hálkan var einstaklega slæm og segir Kristján göturnar ekki hafa verið saltaðar þar í morgun þegar fólk lagði af stað til vinnu.

Hann segir umferðina hafa verið óvenju þunga í morgun miðað við síðustu vikur sem megi líklega skýra vegna þess að fyrirtæki séu farin að kalla fólk út heimavinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert