Tímabundin setning Ásdísar Höllu Bragadóttur í embætti ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins var innan ramma laganna. Þetta segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Umboðsmaður Alþingis sendi bréf til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra á þriðjudag þar sem hún var beðin um skýringar á tímabundinni setningu ráðuneytisstjóra.
„Nýtt ráðuneyti getur ekki tekið til starfa nema með ráðuneytisstjóra. Því var sett í embættið tímabundið til þriggja mánaða. Ekki er um að ræða fasta skipun heldur tímabundna setningu og tíminn nýttur er til að auglýsa og ráða í embætti ráðuneytisstjóra. Ráðherra hafði við stofnun nýs ráðuneytis einungis val um það að flytja embættismann varanlega í starfið eða setja einhvern til skamms tíma á meðan auglýst væri,“ segir í tilkynningunni.
Ráðherra hefur nú þegar auglýst embætti ráðuneytisstjóra og er umsóknarfrestur til 28. febrúar.
Í tilkynningunni segir enn fremur að Ásdís Halla hafi verið ráðin sem verkefnastjóri við undirbúnings nýs ráðuneytis í byrjun desember 2021 og hafi unnið að því að móta skipulag nýs ráðuneytis.
Því hafi legið beint fyrir að hún myndi halda því verkefni áfram og sinna um leið starfi ráðuneytisstjóra sem fer m.a. með yfirstjórn og stefnumótun ráðuneytisins undir yfirstjórn ráðherra á meðan embættið er auglýst.