Björgunarsveitir af öllu landinu boðaðar út

Frá vettvangi við Úlfljótsvatn fyrr í kvöld.
Frá vettvangi við Úlfljótsvatn fyrr í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að boða út enn fleiri björgunarsveitarmenn til að leita að flugvélinni sem saknað hefur verið í dag. Björgunarsveitir af öllu landinu hafa verið boðaðar út.

„Leitin beinist að Þingvallavatni, og vestur af Úlfljótsvatni og síðan upp á Lyngdalsheiði,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Gæslunnar í samtali við mbl.is.

„Þar er mestur þunginn miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Þyrla Landhelgisgæslunnar er enn við leit og verður við leit til miðnættis, eða eins lengi og við megum hafa áhöfnina með tilliti til hvíldarákvæða,“ segir hann.

Ein þyrla verður í kjölfarið til taks, ef þörf þykir.

Mikill kraftur settur í leitina

„Þetta er með fjölmennari leitum hin síðari ár, ef litið er til þess fjölda björgunarsveitarfólks sem tekur þátt í leitinni og þeirra sem að henni koma. Þannig að það er mikill kraftur og púður sett í leitina.“

Farsímagögn og ferill vélarinnar sjálfar eru ástæða þess að þunginn er settur á þetta leitarsvæði að sögn Ásgeirs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert