Ekki plott til að ná einhverju fram

Linda segir erfitt að vinna að umbótastarfi í þeirri miklu …
Linda segir erfitt að vinna að umbótastarfi í þeirri miklu óvissu sem nú ríkir, en þó sé lagt kapp á að halda því áfram. mbl.is/Ómar Óskarsson

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, segir vissulega erfitt að vinna að umbótastarfi innan félagsins og gera framtíðarplön vegna óvissu um það hver niðurstaða formannskosninga verður. Það verður hinsvegar reynt eftir fremsta megni að halda áfram með þá jákvæðu vinnu sem komin er af stað.

Í morgun voru kynntar niðurstöður vinnustaðagreiningar sem sálfræði- og rágjafastofan Líf og sál gerði fyrir Eflingu, en Linda segir það gleðiefni að margar af þeim ábendingum að úrbótum sem þar koma fram, hafi þegar verið byrjað á.

Hún skilur hins vegar ekki hvernig hægt eða gera vinnustaðagreiningu að einhverju bitbeini og tengja við pólitík, líkt og gerst hefur. Það sé þó týpískt að mál starfsfólks séu notuð í það enn einu sinni.

Vilja koma umbótastarfinu vel á veg 

„Auðvitað er þetta ofboðslega erfitt umhverfi til að vinna í, en þetta hjálpar okkur samt til þess að hafa augun á boltanum og á verkefnunum. Það er það sem heldur okkur starfsfólkinu á floti, að einbeita okkur að verkefnunum og starfinu, af því þetta er ekki höndum okkar hvað er að fara að gerast í þessum formannsslag,“ segir Linda í samtali við mbl.is.

Sólveig gagnrýnir að hafa ekki verið boðuð í viðtal vegna …
Sólveig gagnrýnir að hafa ekki verið boðuð í viðtal vegna greiningarinnar. mbl.is/Hari

„Þess vegna vorum við líka glöð yfir því að þetta kom á þeim tíma sem okkur var lofað. Það þýðir að við getum lagt af stað, þessi heild sem er búin að vera að vinna að þessu hingað til. Við getum þá allavega haldið áfram og komið því starfi vel áleiðis óháð hverjir halda svo hér áfram sem stjórnendur.“

Í niðurstöðum greiningarinnar kemur fram að Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, hafi brugðist þeim skyldum sínum inni á vinnustaðnum. Notaðar hafi verið ógagnlegar aðferðir til að mæta kvört­un­um og van­líðan starfs­fólks. Hafi það aukið á vandann það á vand­ann og endað með al­gjöru rofi á trausti. Flestir hafi hins vegar lýst betri líðan eftir að nýir stjórnendur tóku við.

Sólveig er ein af þeim sem býður sig nú fram til formanns, en þau Ólöf Helga Adolfsdóttir, núverandi varaformaður Eflingar, og Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, sækjast einnig eftir formannsstólnum.

Af hverju ætti einhver að stoppa uppbyggingu á vinnustað?

Aðspurð hvort fólk óttist að vinnustaðgreiningin verði lögð til hliðar ef ný forysta tekur við, segist Linda ekki geta talað fyrir hönd annarra, en það liggi þó fyrir að óvissan sé erfið fyrir alla.

„Fólk óttast um svo margt og þetta er örugglega eitt af því. Þess vegna erum líka að reyna að leggja áherslu á að gera framtíðarplan þannig það verði eitthvað komið í ferli og einhver uppbyggingarvinna komin vel af stað, þannig það verði auðveldara að fylgja henni eftir og halda henni áfram fyrir þá sem taka við henni.“ 

Linda vonast til að hver sá sem taki við sjái að gott starf hafi verið unnið í uppbyggingu á vinnustaðnum.

„Það er í rauninni ekki verið að vinna þvert á neitt sem var komið af stað. Það eru allir sammála um að þær umbreytingar og annað sem fór hér af stað með fyrrum formanni voru góðar. Það var kannski innleiðingin, eftirfylgnin og utanumhaldið sem var ábótavant, allavega samkvæmt þessu.

Við erum bara að innleiða það, gera það almennilega og gera það faglega. Ég sé enga ástæðu fyrir því að nokkur myndi vilja stoppa þetta. Af hverju vill einhver stoppa það að vinnustaður sé byggður upp, verkferlar séu skýrðir og gagnsæi komið á? Ég get ekki séð að það sé neinum í hag. Þetta er allt bara gert fyrir vinnustaðinn,“ segir Linda.

Starfsfólkið þráir frið til að vinna vinnuna sína

Henni þykir gagnrýni á greininguna sem fram hefur komið í dag, meðal annars af hálfu Sólveigar og Viðars, afar sérstök.

„Það er svolítið spes að ætla að taka eitthvað eins og vinnustaðagreiningu og gera það að einhverju bitbeini af því þetta er unnið af algjörlega óháðum aðilum og við komum á engan hátt að þessu eða að niðurstöðunum. Við vissum ekki nákvæmlega hvernig þær yrðu kynntar. Við vissum bara að það yrði gerð þessi greining svo vorum við látin vita að það yrði kynning. Ekkert af þessu er plottað til þess að ná einhverju öðru fram en bara bættu starfsumhverfi. Það er eina sem starfsmennirnir hérna þrá meira en allt held ég. Það er að fá vinnufrið til að vinna fyrir félagsmennina. Það er virkilega mikil ástríða fyrir því hérna inni.“

Linda segist ekki geta skilið hvernig einhver geti komist að þeirri niðurstöðu að annarlegur tilgangur hafi legið að baki vinnustaðagreiningarinnar. En Viðar sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag hann vissi að úttektin yrði sterkasta vopnið í höndum hóps á skrifstofu Eflingar sem lengi hefði haft horn í síðu hans og Sólveigar.

Viðar segir að greiningin sé sterkasta vopnið í höndum starfsfólks …
Viðar segir að greiningin sé sterkasta vopnið í höndum starfsfólks Eflingar. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég vissi að þessir einstaklingar myndu nota sér nafnleysi til að bera mig sökum, og að niðurstöðunum yrði svo lekið á réttum tíma í fjölmiðla til að hámarka skaðann fyrir Sólveigu Önnu og framboð Baráttulistans,“ sagði Viðar jafnframt.

Linda segir það svo fjarri lagi að þetta sé raunin. 

„Þetta er 4. nóvember sem við förum af stað og biðjum um þessa vinnustaðagreiningu, stuttu eftir að þau fara, og ekki með einhvern fókus á þau. Heldur einmitt til að greina vinnustaðinn, greina verkefnið og hvernig við gætum haldið áfram. Svo kemur bara hitt og þetta fram í viðtölunum og greinendurnir draga sínar ályktanir út frá því. Það var aldrei fókus á neinn í þessari vinnustaðagreiningu, það var bara á verkefnin, líðan og starfsumhverfi og svo eru þetta niðurstöðurnar,“ segir hún og bætir við:

„Ég get ekki séð að nokkur hafi vitað þá hvað væri að fara að gerast núna. En við fengum strax að vita að þetta kæmi í lok janúar.“

Afskaplega þreytandi fyrir hinn almenna starfsmann

Þá vísar Linda til þess að ekki hafi legið fyrir í byrjun nóvember að kosningar yrðu á þessum tíma. Margir hafi þá talið ólíklegt að Sólveig kæmi aftur. „Ég sé ekki hvernig þau ná að tengja þetta við einhverskonar pólitík en það er týpískt að mál starfsfólks séu notuð í það, enn einu sinni. Sem er afskaplega þreytandi fyrir hinn almenna starfsmann sem er bara að reyna að vinna vinnuna sína af heilum og hug og fá frið til þess.“

Bæði Sólveig og Viðar hafa gagnrýnt að þau hafi ekki verið boðuð í viðtöl vegna vinnustaðagreiningarinnar þar sem sérstaklega hafi verið spurt um þau í viðtölunum við starsfólk. Það var þó ekki gert, líkt og fram hefur komið.

Linda segir skýringuna einfaldlega vera að þau starfi ekki á vinnustaðnum. Aðeins hafi verið rætt við núverandi starfsfólk Eflingar. „Það var bara starfsfólk vinnustaðarins sem var tekið í viðtöl til að laga starfsumhverfið hér; vinnuferla, upplýsingaflæði og annað sem hafði verið kvartað yfir að gengi ekki nógu vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert