Forsendur harðra aðgerða brostnar

Runólfur Pálsson verðandi forstjóri Landspítalans segir nauðsynlegt að aflétta í …
Runólfur Pálsson verðandi forstjóri Landspítalans segir nauðsynlegt að aflétta í skrefum.

Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítalans og verðandi forstjóri, segist geta tekið undir sjónarmið um að forsendur fyrir hörðum takmörkunum séu ekki lengur til staðar.

„Framan af vorum við að gæta að lífi og heilsu fólks og takmarka smitdreifingu eins og við mögulega gátum, því þessi sýking var mjög hættuleg fyrir marga. Síðan hefur þetta verið að breytast og síðastliðinn mánuð hefur staðan gerbreyst varðandi alvarleika veikinda, sem er í langflestum tilfellum mjög lítill,“ segir Runólfur sem þekkir þessa hluti ágætlega verandi yfirmaður Covid-göngudeildar spítalans.

„Þetta er orðið langt ferli og fólk er farið að sjá það núna að þessi sýking er ekki lengur hættuleg eins og hún var. Það má segja að forsendur harðra aðgerða séu brostnar, þess vegna erum við í þessu afléttingarferli,“ segir hann.

Erfitt fyrir heilbrigðisgeirann að missa starfsfólk

Hann segir stærstu ógnina í heilbrigðisþjónustunni nú vera þá að missa út starfsfólk vegna smita en það eigi við um hjúkrunarheimili jafnt sem spítalann. Því verði að huga að afléttingum eins hratt og kostur er en fara í það gætilega. Óvissa kæmi þá upp ef smit fara upp úr öllu valdi, sem gæti gerst ef öllu er aflétt í einu vetfangi.

„Ég held það sé skynsamlegra að gera það í skrefum og eins hratt og við getum,“ segir Runólfur. 

Finnst þér að við ættum að aflétta hraðar?

„Ég held að það þurfi að skoða það núna fyrir helgina og meta hvernig staðan hefur verið síðustu daga. Ef stöðugleiki er fyrir hendi. Við vitum líka að það er fjöldi smita að eiga sér stað sem er ekki einu sinni greindur. Við erum ekki með sömu tök á þessu og við höfðum áður.“

Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar hafa leitt í ljós að um helmingur þeirra sem hafa mótefni við veirunni hafa ekki greinst með PCR-prófi. 

Ísland ekki í sömu stöðu og Norðurlöndin

„Ég vil enga töf á þessum afléttingum en samt sem áður á að gera þetta á skynsamlegan hátt, þannig að við höldum ákveðinni stjórn á hlutunum líka,“ segir hann.

Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að afléttingum – Danmörk hefur aflétt öllum takmörkunum innanlands, Finnland mun aflétta öllu 1. mars eða fyrr, Noregur þann 17. febrúar og Svíþjóð þann 9. febrúar. 

„Mér finnst skynsamlegra að við tökum þetta í skrefum áður en við náum að aflétta öllum takmörkunum líkt og hefur verið gert í nágrannalöndum. Við verðum síðan að hafa í huga að heilbrigðisþjónustan hjá okkur er viðkvæmari en í stærri samfélögum.

Við getum ekki alveg borið okkur saman við þau því við erum svo miklu smærri þjóð, í öðrum löndum eru fleiri heilbrigðisstofnanir og meira svigrúm til að mæta ástandi sem hefur skapast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert