Hart tekist á um afléttingar á Alþingi

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Kristinn Magnússon

Hart var tekist á um afléttingar sóttvarnaaðgerða á Íslandi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Miðflokkurinn vill að öllum aðgerðum verði aflétt strax en heilbrigðisráðherra telur að vegna stöðunnar þurfi að fara varlega í sakirnar. Hann sagði jafnframt að í skoðun væri að stytta einangrun úr 7 dög­um í 5. 

Ísland reki lestina þrátt fyrir að vera í góðri stöðu

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði mörgum hafa brugðið þegar Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, tilkynnti framlengingaráætlun ríkisstjórnar á sóttvarnaraðgerðum í síðustu viku. Benti hann einnig á að síðan þá væri einungis búið að gera tvær breytingar á reglunum. Þá spurði hann heilbrigðisráðherra hvort nú væri ekki hægt að láta gott heita og ganga alla leið í afléttingum.

„Morgundagurinn held ég að væri prýðisdagur til að aflétta öllum þessum aðgerðum. Það eru fluttar fréttir af því núna að Ísland reki lestina í afléttingum, land sem stærir sig af því að vera í bestu stöðunni í Evrópu.“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá sagði Bergþór fyrirtækin engjast um vegna hringlandaháttar í sóttvarnaraðgerðum og að ríkisstjórnin finni sig nú í þeirri stöðu að vera hrekjast út í horn og úr hverju verkinu á fætur öðru.

„Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, þú hefur stöðu til að kippa þessu í lag. Nú er tími til kominn að gamli þjálfarinn komi fram, setji liðið sitt í stand, stöðvi þetta og hætti þessari vitleysu. Kemur það til greina hæstvirtur heilbrigðisráðherra, að kippa þessu í lag með einu pennastriki,“ spyr Bergþór Willum.

Passa þurfi að útbreiðslan verði ekki of hröð

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, svarar því þá að hann telji það ekki lausn í málinu að beita sterkum lýsingarorðum. Þá segist hann átta sig á því að hlutverk hans sé að meta stöðuna jöfnum höndum og að sóttvarnarlögin geri þær kröfur til hans að gera heildstætt mat jöfnum höndum og hverju sinni.

„Við erum í þeirri stöðu núna, út frá áhættumati okkar sérfræðinga, sem hafa staðið sig afar vel, að vera með afbrigði sem við vitum að smitast auðveldar svo útbreiðslan er meiri. Afbrigðið er þó sem betur fer veikara en önnur afbrigði þannig það er minna um alvarleg veikindi.“

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróun faraldursins undanfarna daga gefi þó tilefni til bjartsýni, að sögn Willums. Nú séu sex dagar liðnir frá því að ný reglugerð tók gildi og út frá heildstæðu mati sé verið að taka afléttingar á sóttvarnaraðgerðum í skrefum og vinda ofan af kefli takmarkana.

„Síðast í gær afléttum við á sitjandi viðburðum og svo er í skoðun núna í þessum töluðu orðum, í samvinnu við covid-göngudeild, þar sem álagið hefur aukist, ákvörðun um að stytta einangrun úr 7 dögum í 5. Í áætlunum er það nefnilega einkum tvennt. Það er þessi hraða útbreiðsla smita og veikindi.

Það eru mikil veikindi svo starfsemi hefur raskast víða, ekki bara í heilbrigðisþjónustu. Það er fyrst og fremst kannski kjarninn í því núna að við verðum að passa að þetta verði ekki of hröð útbreiðsla, þannig við ráðum við stöðuna víða í fjölmörgum innviðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert