Ari Páll Karlsson
Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði nú undir kvöld við Kleifarvatn, að flugvélinni sem týndist fyrr í dag.
Stefnan var tekin yfir vatnið vegna tilkynningar frá flugmönnum sem heyrðu í neyðarsendi meðan þeir flugu yfir vatnið.
„Það er verið að kanna þessa ábendingu og þess vegna er þyrlan á þessum slóðum,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is fyrir skemmstu, þegar þyrlan leitaði á þeim slóðum.
Engin staðsetning barst frá neyðarsendinum en merkið heyrðist greinilega, að sögn Ásgeirs.
Ásgrímur Ásgrímsson sem stýrir aðgerðum hjá Landhelgisgæslunni, sagði í kvöldfréttum RÚV að þyrlan hefði flogið að Kleifarvatni en ekki fundið merki.
Þyrlu hafi þá verið flogið austur að Þingvallavatni, því svæði sem leitin hefur beinst að hingað til. Enn eru þó björgunarsveitir að leita við Kleifarvatn og þar í grennd.
„Leitin er á báðum svæðunum,“ sagði Ásgrímur.