Langaði að öskra daginn eftir

Hulda Olsen Karlsdóttir, Hafnfirðingur að uppruna, en búsett í Noregi …
Hulda Olsen Karlsdóttir, Hafnfirðingur að uppruna, en búsett í Noregi frá sjö ára aldri, í Kristiansand og Ósló, í salarkynnum æðsta dómstóls landsins, Hæstaréttar Noregs. Ákæruvaldið seiddi Huldu til sín snemma á lögmannsferli hennar, hún hóf störf hjá efnahagsbrotalögreglunni Økokrim árið 2008 þaðan sem leiðin lá til héraðssaksóknaraembættis Óslóar. Ljósmynd/Aðsend

„Já já, ég er fædd í Reykjavík,“ segir Hulda Olsen Karlsdóttir í samtali við Morgunblaðið og reynist vera Hafnarfjarðarmær af 1971 árgangi þrátt fyrir að hafa hleypt heimdraganum sjö ára gömul og flust búferlum til Kristiansand í Noregi, en Hulda hefur verið áberandi í norskum fjölmiðlum upp á síðkastið sem saksóknari héraðssaksóknaraembættis Óslóar í reynslulausnarmáli eins umtalaðasta og verst þokkaða afbrotamanns Noregs um áratuga skeið, fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks, sem nú gegnir reyndar nafninu Fjotolf Hansen eftir breytingu þar á.

„Ég missti pabba minn þegar ég var tveggja ára og fékk svo nýjan pabba,“ segir saksóknarinn af æskuárum sínum, en Hulda hefur varðveitt ylhýrt móðurmál sitt af kostgæfni og talar hina áheyrilegustu íslensku þótt sá hluti viðtalsins, sem snýr beinlínis að réttarsalnum, hafi farið fram á norsku.

Hulda er barn númer tvö í fæðingarröð fjögurra systra, á eina ári eldri, en á þeim yngri munar fjórum og fimm árum í hina áttina. „Pabbi, sem er rafvirki, fékk þessa góðu hugmynd að flytja til Noregs, taka fjölskylduna með sér og fara að vinna í Norðursjónum [við olíuvinnslu Norðmanna],“ segir Hulda og rifjar upp búferlaflutninga árið 1978, þegar hún var sjö ára gömul. Ætlun föður hennar hafi verið að staldra við á norskum vinnumarkaði í tvö ár, sem urðu fimmtán er upp var staðið, foreldrarnir sneru aftur á Frónið 1993, í Grafarvoginn, og hafa nú sest í hinn annálaða helga stein.

Heppin að hafa lokið einu skólaári á Íslandi

„Þarna bjuggu margir Íslendingar á þeim tíma,“ rifjar Hulda upp af þeim vinalega bæ Kristiansand í náttúruparadísinni Suður-Noregi og kveður hann hafa orðið fyrir valinu þar sem vinafólk foreldra hennar hafi einmitt búið þar, þrátt fyrir að fjölskyldufaðirinn hafi ávallt þurft að koma sér fyrst til olíuhöfuðstaðarins Stavanger til að komast í borpallaþyrlurnar, sem enn þann dag í dag eru í stöðugum ferðum með olíustarfsfólk til og frá Sola-flugvellinum.

„Þá var ég svo heppin að vera búin með eitt ár í íslenskum skóla, því á þessum tíma byrjuðu barnaskólarnir í Noregi ekki fyrr en við sjö ára aldur,“ segir Hulda, sem náði einum vetri í Víðistaðaskóla í Hafnarfirðinum áður en fjölskyldan flutti út í júlí 1978. „Við fluttum í hverfi í Kristiansand þar sem margt var um innflytjendur og skólinn þar, sem var reyndar bara fyrsti til þriðji bekkur, tók mjög vel á móti útlendingum og eins og ég man þetta kunni ég fyrst ekkert í norsku og svo kunni ég bara allt,“ segir Hulda og hlær að minningum um fyrstu skrefin í skandinavísku skólakerfi fyrir tæpri hálfri öld.

Með fjölskyldunni heima í Ósló. Eiginmaðurinn uppgötvaðist í bankanum, Den …
Með fjölskyldunni heima í Ósló. Eiginmaðurinn uppgötvaðist í bankanum, Den norske Bank sem þá hét, stærsta banka Noregs og nú fjármálaveldinu DNB eftir sameiningu við Gjensidige NOR árið 2003. Ekki kunni það góðri lukku að stýra að parið nýja ynni í sama bankanum svo Hulda réð sig til Héraðsdóms Eidsvoll um stundarsakir. Synirnir eru 15 og 17 ára gamlir. Ljósmynd/Aðsend

Hún var frá unga aldri ákveðin í að feta menntaveginn og er hún var orðin heimavön í Noregi og vel það, árið 1991, lá leiðin til höfuðstaðarins í nám við lagadeild Háskólans í Ósló. Á meðan Hulda drakk í sig lögspekina fluttu foreldrar hennar til Íslands á ný og yngri systurnar tvær með þeim, en þær sneru þó aftur og eru systurnar fjórar nú allar búsettar í Noregi, tvær í Kristiansand, ein í Drøbak og Hulda sjálf í Ósló, en hún kveður foreldrana duglega við að ferðast til Noregs og heimsækja dömurnar sínar.

Get alveg talað um veðrið

Með embættispróf í lögum upp á vasann frá Óslóarháskóla árið 1997 bauðst Huldu staða lögmannsfulltrúa við Den norske Bank, stærsta banka landsins, sem eftir samruna við Gjensidige NOR árið 2003 varð einfaldlega DNB og er um þessar mundir næststærsta fjármálafyrirtæki Norðurlandanna á eftir Nordea-bankanum.

„Þar kynntist ég manninum mínum verðandi og er fram liðu stundir varð það ekkert sérstaklega heppilegt að við störfuðum bæði við bankann svo ég flutti mig um set,“ segir Hulda, en þegar hér er komið sögu fer viðtalið fram á norsku, „ég get alveg talað um veðrið og eitthvað svona bla bla á íslensku, en þegar ég fer að tala um vinnuna vantar mig allt of mörg orð,“ útskýrir saksóknarinn glettnislega eftir glimrandi frammistöðu á móðurmáli sínu.

Fjallabrölt, skíði og sumarbústaðadvöl í því sem Norðmenn kalla „hytte“ …
Fjallabrölt, skíði og sumarbústaðadvöl í því sem Norðmenn kalla „hytte“ fær norsk hjörtu til að slá örar og vafalítið íslensk-norsk einnig. Hulda og maður hennar vinna bæði langa vinnudaga og kunna vel að meta guðsgræna náttúruna þegar færi gefst til að forða sér úr höfuðborginni og brauðstritinu. Ljósmynd/Aðsend

Þar með beið lögfræðingsins unga úr Hafnarfirði staða dómarafulltrúa við Héraðsdóm þess fornfræga bæjar Eidsvoll, skammt norður af Gardermoen-flugvellinum, en í Eidsvoll kom 112 manna stjórnlagaþing embættismanna, bænda, kaupmanna og jarðeigenda saman 16. febrúar 1814 og setti Norðmönnum stjórnarskrá, sem þar var undirrituð 17. maí um vorið.

Manndráp, fíkniefni, ofbeldi

Eftir tvö ár í Eidsvoll, sjö ár á lögmannsstofu og fæðingu tveggja myndarlegra pilta skynjaði Hulda seiðandi kall ákæruvaldsins, glæps og refsingar, þessara fylgifiska mannkynsins frá örófi alda fram á vora daga og alveg áreiðanlega einhver ár í viðbót. Hún hóf störf hjá efnahagsbrotalögreglunni Økokrim árið 2008, sem í raun er lögreglustofnun með rannsóknar- og ákæruvald og liggur þannig innan vébanda lögreglu og ríkissaksóknaraembættisins.

Vikuna eftir ódæði Breiviks sumarið 2011 komu Norðmenn saman í …
Vikuna eftir ódæði Breiviks sumarið 2011 komu Norðmenn saman í þúsundatali með logandi kyndla í velflestum borgum og bæjum landsins og minntust landa sinna sem fallið höfðu í mestu blóðtöku norskrar þjóðar síðan landið var undir járnhæl nasista í heimsstyrjöldinni síðari. Myndin er tekin í miðbæ Stavanger 27. júlí 2011. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Það var svo árið 2014 sem ég tók við saksóknarastöðu við héraðssaksóknaraembættið í Ósló og fór þá auðvitað að fást við mun breiðara svið afbrotamála en hjá Økokrim, þótt vitaskuld hafi starfið þar gefið mjög gott veganesti og góðan undirbúning,“ segir Hulda, „en þarna er auðvitað komið út í allt annað en það sem felst í starfi á einkarekinni lögmannsstofu, mér finnst það starf, sem ég sinni í dag, hafa ákaflega mikla þýðingu og það hefur reynst mér mjög gefandi,“ heldur hún áfram.

Við embætti héraðssaksóknara höfuðstaðarins eru starfandi 33 saksóknarar og málin nánast eins misjöfn og þau eru mörg, að sögn Huldu. Ekki sé sjálfgefið að öll mál, sem berast embættinu, endi með ákæru þar, fjöldi mála gangi til baka til lögreglu, sem fer með ákæruvald í sumum málaflokkum, áberandi hluti af verkahring héraðssaksóknaraembættisins séu manndrápsmál, stærri fíkniefnamál og alvarleg ofbeldisbrotamál.

„Við reynum að vinna þannig að sami saksóknari fylgi hverju máli gegnum allt ferlið, undirbúning ákæru, málflutning fyrir héraðsdómi og svo upp á efri dómstig ef til þess kemur,“ útskýrir Hulda. Áður fyrr hafi ferlið verið lausara í reipunum og allt að þrír saksóknarar unnið með sama mál á mismunandi stigum þess, en slíkt sé einfaldlega aldrei heppilegt samanborið við að einn saksóknari ýti sínu máli úr vör og sigli því að lokum í höfn.

Risastór hópur aðstandenda á hliðarlínunni

Fáum íbúum Noregs, sem komnir voru til vits og ára 22. júlí 2011, líður sá dagur úr minni, og er sá, sem hér skrifar, þar engin undantekning, þá búsettur í Stavanger, sem varð bókstaflega eins og draugabær í kjölfar ódæðis Breiviks, en þar hafði matarhátíðin Gladmat staðið sem hæst, þegar fregnir af atburðum í Ósló og Útey fóru sem eldur um sinu, og stóð von bráðar ekki annað eftir af 200.000 gesta hátíð en tóm sölutjöld og fánar, sem blöktu einmanalega við hálfa stöng. Hvernig þótti Huldu að standa í réttarsalnum og neyta ýtrustu krafta til að sannfæra dómsvaldið um að Breivik teldist engan veginn hæfur til að blandast mannlegu samfélagi á reynslulausn?

Í fríðu föruneyti gönguhóps vinkvenna í fjallasal Jotunheimen, 3.500 ferkílómetra …
Í fríðu föruneyti gönguhóps vinkvenna í fjallasal Jotunheimen, 3.500 ferkílómetra víðáttu í Suður-Noregi þar sem hæstu fjallstinda Norður-Evrópu er að finna, Galdhøpiggen og Glittertinden. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ákaflega sérstakt mál,“ segir Hulda og þagnar í stutta stund, orðum sínum til áhersluþunga. „Hefði þetta verið hvert annað reynslulausnarmál með tveggja daga málflutningi hefðu allt önnur lögmál gilt. Hérna er hins vegar í ótal horn að líta, allt þjóðfélagið er upptekið af því hver örlög þessa manns verði. Hvort einhver hætta sé á því að hann sé á leið út úr fangelsi. Hér er risastór hópur aðstandenda [fórnarlamba Breiviks] á hliðarlínunni, málatilbúnaður og framganga ákæruvaldsins verður einfaldlega að vera þannig að það ávinni sér og eigi traust þessa hóps,“ segir saksóknarinn með alvöruþrunginni festu í málrómnum.

„Skerpan, einbeitingin og formlegheitin í réttarsalnum verður að ganga fyrir öllu. Þar þarf maður að vera málefnalegur, hnitmiðaður og ekki sýna vott af tilfinningum. Það er ótrúlega margt, sem maður hugsar og mann langar að segja, en þarf að bíta á jaxlinn. Mig langaði til að öskra daginn eftir og satt að segja leið mér mun verr þegar málflutningnum var lokið en meðan á honum stóð,“ játar Hulda og lái henni hver sem vill.

Erfitt að setja einhverja greiningu á Breivik

Breivik hlaut á sínum tíma dóm samkvæmt réttarúrræði, sem á norsku kallast forvaring, sem bókstaflega táknar varðveisla á íslensku og leysti ævilangt fangelsi af hólmi í norskum refsirétti. Felur úrræði þetta það í sér, að hægt er að framlengja fangelsisvist sakbornings í áföngum, að fengnu áliti sérfræðinga á sviði geðheilbrigðis, og þannig í raun halda afbrotamanni bak við lás og slá til æviloka, teljist hann svo háskalegur mannlegu samfélagi að klefinn geymi hann best. Hlaut Breivik 21 ár, sem lyktað gæti sem 40 árum, eða 50, jafnvel ævinni allri. Dómara ber þó að tiltaka lágmarksafplánun, minstetid, sem hér var 10 ár, og er fanga þá heimilt að sækja um lausn til reynslu. Mun Breivik sitja inni til dauðadags?

„Um það er mjög erfitt að spá,“ svarar Hulda, „persónuleiki hans er mjög flókinn og mjög erfitt að setja einhverja greiningu á hann, en hann er haldinn persónuleikaröskunum, sem ekki verða lagfærðar og sem liggja til grundvallar því sem hann gerði árið 2011,“ heldur hún áfram og bætir því við að Breivik sé þannig staddur, að sannfæring hans og skoðanir verði honum ávallt fjötur um fót. „Hann heldur því fram, að hann muni aldrei aftur koma skoðunum sínum á framfæri með ofbeldi, en hann nærist algjörlega á athygli, á því að koma pólitískum sjónarmiðum á framfæri, það sáum við glöggt við meðferð þessa máls og það var einmitt það, sem var drifkrafturinn á bak við gjörðir hans árið 2011, að koma boðskap sínum á framfæri,“ segir Hulda. „Hættan á því að hann endurtaki fyrri háttsemi sína er nákvæmlega jafn mikil núna og sú hætta, sem stafaði af honum árið 2011.“

Snýst ekki bara um að henda lyklinum

Hún telur forvaring-úrræðið algjörlega nauðsynlegt samfélaginu, þar sé komið úrræði til verndar þegnunum gegn óforbetranlegum lífsháskalegum brotamönnum, bæjarins verstu og aðeins rúmlega það. Í Noregi var refsingin ævilangt fangelsi, livsvarig fengsel, numin úr hegningarlögum árið 1981. Tekur Hulda þó fram, að afar fátítt sé að afbrotamenn deyi drottni sínum í norskum fangelsum, úr elli það er að segja. Flestir forvaring-dómar séu í framkvæmd langt frá því að ná 21 ári, fjöldi afbrotamanna fari út í samfélagið á ný eftir slíka dóma, og nefnir Hulda þar Baneheia-málið í Kristiansand sem nýlegt dæmi, en um það fjallaði mbl.is ítarlega í febrúar í fyrra.

„Auðvitað verða allir þó að njóta réttarins til að sækja um reynslulausn, þetta snýst ekki bara um að læsa menn inni í klefa og henda lyklinum,“ segir Hulda Olsen Karlsdóttir, saksóknari í Ósló, sem sleit barnsskónum í Hafnarfirði, gekk í Víðistaðaskóla og horfist nú áratugum síðar í augu við hættulegasta núlifandi afbrotamann Noregs í réttarsalnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert