Ari Páll Karlsson
Bæst hefur verulega í hóp þeirra sem leita nú flugvélarinnar sem er saknað. Taka á fimmta hundrað manns nú þátt í leitinni.
Merki hóf að berast frá neyðarsendi nú rétt fyrir klukkan 18, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Ekki hafi þó gengið að staðsetja hvaðan merkið er sent út.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir björgunarsveitir vinna náið með Landhelgisgæslunni og lögreglunni að leitinni.
Ákvörðun var tekin um það upp úr klukkan 17 að kalla til frekari liðsauka björgunarsveitarmanna og eru þeir um 400 sem hafa svarað útkallinu.
„Við erum svolítið að keppast við það að það sé farið að dimma. Það klárlega flækir og gerir leitina erfiðari að einhverju leyti,“ segir Davíð, spurður hverju myrkrið muni breyta varðandi leitina.
Þá er einnig mikill snjór á svæðinu og byrjað að blása.
„Það er kominn smá skafrenningur á einhverjum svæðum.“
Enn er reynt að afla upplýsinga til að þrengja leitarsvæðið, en leitin beinist nú að svæðinu suður af Þingvallavatni. Síðast sást til vélarinnar í grennd við vatnið.