Sást til vélarinnar suður af Þingvallavatni

Frá Þingvallarvatni í dag.
Frá Þingvallarvatni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein af þeim vísbendingum sem hafa borist vegna leitarinnar að flugvélinni sem ekkert hefur spurst til síðan í morgun er að hún hafi sést suður af Þingvallavatni. Íslenskur flugmaður og þrír erlendir ferðamenn eru um borð í vélinni. Hún lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 10.30 og til stóð að fljúga austur fyrir fjall og gerði flugplanið ráð fyrir tveggja tíma flugi.

Þegar flugvélin skilað sér ekki hófst eftirgrennslan og í kjölfarið sú víðtæka leit sem nú er í gangi, að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Helsta leitarsvæðið er vestan við Úlfljótsvatn og suður af Þingvallavatni og er þar miðað við fyrirliggjandi gögn. Ekkert neyðarkall barst frá flugvélinni.

Þessi mynd var tekin á Mosfellsheiði í dag þar sem …
Þessi mynd var tekin á Mosfellsheiði í dag þar sem leit stóð yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leitarflugvél frá danska flughernum flaug yfir svæðið við Þingvallavatn en ekkert sást til vélarinnar. Hún mun ekki halda áfram leitinni eins og staðan er núna, að sögn Ásgeirs.

Leitinni verður haldið áfram og er gert ráð fyrir að fjölga leitarhópum eftir því sem líður á daginn.

Þorkell Ágústsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa er einn þeirra sem kemur að leitinni að vélinni. Hann sagðist í samtali við mbl.is ekki vita hvers vegna ekkert boð kom frá neyðarsendi vélarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert