Sólveig neitar að svara spurningum um starfsfólkið

Fríðindi starfsfólks Eflingar vöktu furðu Sólveigar.
Fríðindi starfsfólks Eflingar vöktu furðu Sólveigar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sækist aftur eftir formannsstól Eflingar, ætlar ekki að tjá sig um það hvernig hún hyggst að taka á málum á skrifstofu félagsins, ef hún nær kjöri. Hún var meðal annars spurð hvort hún sæi fyrir sér að notast við skýrslu sem sálfræði- og ráðgjafastofan Líf og sál vann um það hvernig bæta megi líðan starfsfólks og samskipti á vinnustaðnum.

Sólveig sagði af sér sem formaður félagsins í lok október á síðasta ári, en hún segir starfsfólkið hafa hrakið sig úr starfi með því að draga ekki til baka ályktun sem innihélt lýsingar á óöryggi og vanlíðan starfsfólks á vinnustaðnum. En RÚV hafði þá fengið veður af ályktunni og fjölmiðlaumfjöllun um málið vofði yfir.

Í tölvupósti sem Sólveig sendi starfsfólkinu og tilkynnti því um afsögn sína sagðist hún ætla að hlýta þessari „afdráttarlausu vantraustsyfirlýsingu“ enda gerði hún starf hennar ómögulegt.

„Með ákvörðun ykk­ar sl. föstu­dag um að standa staðfast­lega við ýkt­ar  og ósann­gjarn­ar lýs­ing­ar trúnaðarmanna á vinnustaðnum sem ég ber ábyrgð á hafið þið opnað á nei­kvæða um­fjöll­un og umræðu sem ger­ir mér ill­mögu­legt að leiða þá bar­áttu,“ sagði hún jafn­framt i póst­in­um.

Starfsfólkið kvíðir hugsanlegri endurkomu

Ragnheiður Valgarðsdóttir, annar trúnaðarmanna starfsfólks Eflingar, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að fólk hefði verið miður sín yfir afsögn Sólveigar. Það hafi ekki verið tilgangur ályktunarinnar. Eingöngu hafi verið um að ræða vinnuskjal fyrir stjórnendur til að hægt væri að fara yfir það sem væri að og færa til betri vegar. Ragnheiður benti jafnframt á að margir á skrifstofunni hefðu unnið með Sólveigu í baráttunni og litu upp til hennar sem verkalýðsleiðtoga.

Eftir afsögnina hefur Sólveig ítrekað látið orð falla í garð starfsfólksins í fjölmiðlum og í færslum á Facebook, sem valdið hafa því vanlíðan. Hún hefur meðal annars sagt að starfsfólkið hafi aldrei skilið baráttuna eða sett sig inn í hana af þeirri dýpt sem þarf. Nú er staðan þannig að meirihluti starfsfólksins er óttaslegið og kvíðir mögulegrar endurkomu hennar, að sögn Ragnheiðar.

„Hún ýjar að því í komm­ent­um og í status­um á sín­um miðlum að starfs­fólkið sé bara ein­hverj­ir ónytj­ung­ar. Að við séum bara áskrif­end­ur að laun­un­um okk­ar og séum ekki að vinna vinn­una okk­ar, skilj­um ekki bar­átt­una og séum bara til óþurft­ar,“ sagði Ragnheiður við mbl.is. Sólveig hafi æst félagsmenn upp gegn starfsfólkinu og gefið hálfgert skotleyfi á það.

„Svo sárn­ar okk­ur líka henni finnst við ekki geta speglað okk­ur nógu vel í kjör­um fé­lags­manna. Við erum í dag­leg­um sam­skipt­um við fé­lags­menn, við sem erum á kjara­mála­sviði, í sjúkra­sjóði og í af­greiðslunni og höld­um uppi þess­ari grunn­starf­semi fé­lags­ins. Við erum að aðstoða fé­lags­menn við að leiðrétta laun­in sín, sækja rétt sinn og upp­lýsa þau um rétt­indi, gera launakröf­ur og fleira. Að fá þetta í bakið, að við séum ann­ars flokks starfs­menn, er hræðilega ljótt.“

Fríðindi starfsfólks vöktu furðu 

Í færslu sem Sólveig birti á Facebook-síðu sinni í gær svaraði hún fyrir samantekt á kostnaði Eflingar vegna ýmissa starfsmannamála í formannstíð hennar, sem RÚV greindi fyrst frá. Í samantektinni, sem unnin var af Eflingu, kemur fram að kostnaðurinn var 130 milljónir vegna starfslokasamninga, launa á uppsagnafresti, sem fólk þurfti ekki að vinna, og langtímaveikinda.

Sólveig segir í færslunni að kostnaður við starfsmannahald á skrifstofunni sé miklu meiri en greint hafi verið frá. Það hafi vakið furðu hennar þegar hún hóf störf hjá Eflingu hve mikil og kostnaðarsöm fríðindi starfsfólkið nyti á kostnað félagsfólks.

„Þannig ætti starfsfólkið bæði að vera á samkeppnishæfum markaðslaunum miðað við einkageirann, þ.e.a.s hærri launum en tíðkast hjá ríki og sveitarfélögum, og á sama tíma njóta einnig allra fríðinda úr samningum við hið opinbera, nánar tiltekið ríflegs veikindaréttar, uppsagnarverndar og uppsagnarfresta. Og eins og ég segi var þess gætt mjög rækilega að ég vissi að svona hefði þetta verið og svona ætti þetta einfaldlega að vera,“ skrifar hún.

Þá væru óátalin ýmis önnur fríðindi starfsfólks, svo sem ókeypis veislumatur í hádeginu, dýrar árshátíðarferðir, til útlanda, einkaskrifstofur fyrir hvern einasta starfsmann með fyrsta flokks tölvu- og húsbúnaði, tíðar hópeflis- og átsamkomur á vinnutíma, og fleira.

Svarar ekki spurningum um ásakanir í garð starfsfólks

Sólveig segir starfsfólkið markvisst hafa sóst eftir því að nýta sér réttindi sín.

„Eftir að ég kom til starfa hjá Eflingu hafa fjölmargir starfsmenn félagsins, sem af ýmsum ástæðum hefur verið í nöp við mig og þær breytingar sem ég hef barist fyrir, þær breytingar sem ég hafði umboð félagsfólks til að innleiða, sóst markvisst eftir að nýta sér til hins ítrasta öll þau veglegu réttindi sem þeir njóta tengt veikindum og starfslokum.“

Sólveig vildi ekki svara spurningum blaðamanns varðandi þessar ásakanir í garð starfsfólksins. Var hún meðal annars spurð hvort það væri ekki eðlilegt að starfsfólk nýtti sér sín réttindi.

Þá var hún einnig spurð hvort væri ekki eðlilegt að réttindi starfsfólks á skrifstofu Eflingar væru til fyrirmyndar og hvort þetta væru ekki réttindi sem hún vildi að sínir félagsmenn nytu. Sólveig ítrekaði við blaðamann að hún vildi ekki svara spurningum um þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert