Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Brandenburg, hefur stigið til hliðar vegna ásakana Haddar Vilhjálmsdóttur, almannatengils og lögfræðings, á hendur honum.
Ragnar og Hödd eiga saman dóttur en í nýjasta tölublaði Vikunnar segir Hödd að barnsfaðir hennar hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi, án þess þó að nafngreina hann.
Í frétt Mannlífs um viðtal Vikunnar er birt textabrot úr viðtalinu. Þar segir Hödd m.a. að barnsfaðir hennar hafi hætt með henni eftir að faðir hennar lést, hafi ætlað að skilja við hana kvöldið sem hún missti vinnuna og hafi niðurlægt hana fyrir framan vinkonur sínar, vini og samstarfsfólk hans.
DV greinir svo frá því að ritstjórn Vikunnar hafi borist bréf frá lögmanni mannsins áður en viðtalið var birt. Var Vikunni þar hótað lögsókn ef birta ætti viðtalið.
Ragnar segir í færslu á Facebook að honum þyki leitt að lesa lýsingarnar en að hann ætli ekki að „úttala“ sig um sína hlið í fjölmiðlum. Þau Hödd eiga í forræðisdeilu, að sögn Ragnars.
„Ég tekst á við þetta mál með hagsmuni dóttur okkar að leiðarljósi,“ skrifar Ragnar.