Þyrlur Gæslunnar leita að flugvél

Þyrla Gæslunnar á flugi við Botnssúlur, mynd úr safni.
Þyrla Gæslunnar á flugi við Botnssúlur, mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð út vegna lítillar flugvélar sem ekki hefur náðst samband við. Þetta staðfestir Landhelgisgæslan við mbl.is.

Uppfært kl. 14.27

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, stendur leitin enn yfir. Flugvélin tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í morgun og hefur hún ekki skilað sér til baka. Verið er að skoða alla möguleika.

Fjórir eru um borð í vélinni, samkvæmt upplýsingum Gæslunnar.

Þyrlusveitin fór í loftið klukkan rétt rúmlega tvö í dag. Einnig voru kallaðar út björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi.

Uppfært kl. 15.03:

Leitin að flugvélinni stendur enn yfir og hefur önnur þyrla Gæslunnar, TF-EIR, verið kölluð út til aðstoðar. Flugvélin er með íslenskt skráningarnúmer og er fjögurra manna. Verið er að vinna í því að þrengja leitarsvæðið, að sögn Ásgeirs.

Nýlega leitaði þyrla Gæslunnar, TF-GNÁ, í námunda við Þingvallavatn, auk þess sem björgunarsveitir leita á svæðum í kringum höfuðborgarsvæðið.

Búið er að virkja samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert